föstudagur, mars 02, 2007

Með lífsmarki.

Ég vil byrja á því að biðja alla tvo blogg-aðdáendur mína afsökunar. Þetta innlegg er eingöngu til að sýna lífsmark.

Átti yndislegan dag í gær. Fyrir utan vinnu og eyðslu í IKEA fór ég í þriggja ára afmæli og fékk bestu köku sem ég hef smakkað lengi. Fór svo á frumsýningu Killer Joe í Borgarleikhúsinu. Unnur og Bjössi eru sigurvegarar kvöldsins í gær. Leiksigur. Snillingar og villingar.

Þoli ekki pjúrítanska klámhunda. Óþolandi gelt. Íslenskt lýðveldi og réttarríki í hættu vegna þess að hótel sagði upp bókun. Jamm og já. Málfrelsi og tjáningarfrelsi í hættu af því fólk lét í sér heyra. Ætli málfrelsinu sé best borgið með að allir þegi!? Kona spyr sig.

Stundaði kynlíf fyrir hádegi í dag og á von á meira slíku yfir helgina. (Just in case Sigmundur Ernir skyldi vera að lesa bloggið mitt...) Þetta kynlíf var bara nokkuð gott. Kom mér á óvart.

En nú aftur í vinnuna. Hvar væri íslensk kvikmyndagerð stödd án mín? Ha?

mánudagur, febrúar 26, 2007

Hin fínasta helgi.

Þetta er barasta búin að vera virkilega fín helgi.

Á Laugardaginn fór ég á sýningu nemenda í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands. Þau kynntu þar glæný matvæli sem er afrakstur stefnumóts þeirra við bændur. Þar var hægt að gæða sér á Skyrkonfekti, mýbita, geitarmjólk og klaka-blóðberg með bláberjabragði.

Frábær hugmynd og í anda Draumalandsins. Bara snillingi hefði getað dottið þetta í hug.

Seinna sama dag fór ég að halda uppá útskrift vinkonu minnar. Hún er nú stimpluð guðfræðingur. Ég er umkringd snillingum. Guðfræðingurinn fékk að sjálfsögðu brauðvél frá mér og með fylgdi kort með tveim fiskum...

Sunnudeginum eyddi ég við kaffivélina hennar Guðrúnar Kristjánsdóttur myndlistarmanns og annars guðfræðings hans Ævars. Hafði fyrr um daginn lagt á mig Kringluna og keypt hlaupahjól fyrir Birtu og þríhjól fyrir Loga. Þau út að leika sér. Get ekki hugsað mér betri sunnudag.

Svo kórónaðist helgin með fyrstu sýningu Fjalarkattarins. Já hann er kominn á kreik aftur, nú í Tjarnarbíói.

Ég sá níusýninguna "Rebel without a cause" í leikstjórn Nicholas Ray með ekki minni stjörnum en Natalie Wood, James Deen og Dennis Hopper.

Myndin er orðin hálfrar aldar gömul og ber þess merki. Karlmennskan í hávegum höfð. En greinilegt að strax fyrir hálfri öld var farið að tala um blessuð börnin sem ekki fengu notið nægra samvista við foreldra sína...

Þvílík yndisleg nostalgía. Það er virkileg þörf á góðri kvikmyndarmenningu og Fjalarkötturinn er mikilvægur þáttur í uppbyggingu hennar.
Það er líka gaman að koma í Tjarnarbíó. Alvöru bíóstemming.

Dagskrá Fjalakattarins er hægt að nálgast á vef Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðarinnar.

Sýningar Fjalakattarins fara að jafnaði fram fjórum sinnum á sunnudögum og tvisvar á mánudögum. Á sýningum eru engar leiknar auglýsingar, sýningar hefjast tímanlega og á sýningum er ekki gert neitt hlé.

Hrönn Marínósdóttir á hrós skilið fyrir dugnaðinn.

Í apríl verða þar líka sýndar myndir Astrid Lingren eins og Lína Langsokkur. Látið ekki Fjalaköttinn fram hjá ykkur fara. Hægt er að skrá sig meðlim hér. Gleymið svo ekki að taka börnin með þegar við á.

Partý á haus

Enn einn pósturinn um lúsafaraldur í skólanum.

"Lús hefur gert vart við sig í skólanum.
Vinsamlega fylgist með hári barna ykkar og annarra fjölskyldumeðlima.
Til að finna út hvort viðkomandi hefur smitast af höfuðlús þarf að kemba hárið með lúsakambi."

Ohhhh á ég að nenna þessu? Eftir lúsafaraldurinn mikla í Svíþjóð fyrir nokkuð mörgum árum, þegar bláeygu kjánarnir föttuðu ekki að öll fjölskyldan var grálúsug fyrr en ein risastór hoppaði ofan á morgunblaðið, hefur ekki borið á þessari óværu. Samt eru allir grandskoðaðir og kembdir í hvert skipti sem tilkynning kemur.

Svo klukkan hálf tíu, ákvað ég að ekki væri hægt að svíkjast undan þessu. Allir á leið í háttinn. Æ, kannski bara í fyrramálið - það er ekkert þarna. En nei, best er illu aflokið.

Tók telpuna og byrjaði að kemba. Með Idolið á til að hafa eitthvað annað að gera í leiðinni.

Æ, það er ekkert í hausnum á þessu barni.

Bíddu er þetta flasa? hmmmmm.

Hvernig lítur lúsaregg út?

Er það svona svartur sandur við hársrótina?

Er þetta ekki bara svifrykið? Jú, þetta er svifrykið.

Afhverju ertu að klóra þér svona krakki? Hættu þessu klóri.

Ha? Þetta er... hmmm.... veit ekki.

Hringja í 84 og ræða hvað og hvernig þetta lítur út áður en það verður ofvaxið og hoppar.
Dj..... ands..... hel..... Nei, Nei, Nei, bölvað já.

AAAARRRRRGGGGGHHHHHH.

Lúsarsjampó - allur pakkinn. Sjóða. Frjósa. Henda.

Blóm og kransar afþakkaðir.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

skór


Birta er í skóm af mömmu

Logi er í skóm af Birtu

Sindri hélt sig við sína skó og ákvað að nóg væri komið og best að skella sér á æfingu.
Posted by Picasa

Sonur minn í Íran.

Hann Máni minn lagði af stað með Jóhönnu ömmu sinni snemma í morgun. Er núna í Amsterdam að bíða eftir flugi til Teheran. Lendir þar í nótt. Þetta verður líklegast stærsta ævintýrið hans hingað til. Hann hefur nú samt lifað þau mörg ævintýrin. En common Íran og öll sú ótrúlega menning sem þar er að finna. Hann getur bara komið stærri til baka. En ég get ekki leynt smá áhyggjuhroll.

Svona eru nú mömmur einu sinni.

Ætti ég að skrifa Bush og láta hann vita að hann eigi mér að mæta ef þeir fara að bröltast meira í miðaustur-löndum meðan hann sonur minn er þar?

Eða ætli þetta sé ekki mest í nösunum á þeim? Stríðið í Írak hefur verið Bandaríkjunum dýrt og þeir geta ómögulega verið spenntir fyrir öðru eins.

Ég man þegar Jóhanna var að lýsa ferð sinni til Íran þegar teiknimyndamálið var í algleymingi. Vaknaði einn daginn á hótelherbergi í Teheran og kveikti á sjónvarpinu. Horfði á fréttir á CNN um að mikil ólæti hefðu brotist út í höfuðborg Íran, Teheran og óður múgur æddi þar um götur og hótaði að drepa alla útlendinga. Hún varð að sjálfsögðu óttaslegin með heilan hóp á sína ábyrgð þarna á hótelinu. Hljóp útí glugga og skimaði yfir borgina. Allt virtist í ró og spekt. Fór niðrí lobby - allir brosandi og indælir. Útá götu - allt í ró og spekt. Fór með hópinn sinn á rölt um Teheran og ekki mættu þau neinu nema kurteisi og höfðingsskap. Fóru öll út að borða á veitingastað um kvöldið hvers eigendur höfðu lagt það á sig að finna nokkuð marga íslenska borðfána og skreyta borðin þeirra með þeim.

Já þær þurfa nefnilega ekki að vera í neinu samræmi við raunveruleikann blessaðar fréttirnar. Stundum eru þær bara sápuópera fyrir þreytta vesturlandabúa og Ameríkana.

Ég ætla allavega að hugga mig við það þangað til drengurinn og amma hans og allir hinir koma aftur heim 10.mars.

Það er hægt að fylgjast með ferðum þeirra á síðunni hennar Jóhönnu Kristjónsdóttur.