laugardagur, júní 16, 2007

Hverju orð fá áorkað.

Logi er, eins og oft vill vera með drengi, seinn til máls. Hann er tveggja ára síðan í desember og ekki farinn að beita heilum setningum. Tja, allavega ekki fyrr en nú í morgun.

Ég var að knúsast eitthvað með hann í morgunsárið um leið og ég tók moggasúdókuið.

Allt í einu skellir Logi sér á bringuna á mér og bítur mig. Mér dauðbrá og hvessti mig, þetta var jú ógeðslega sárt , "hvað ertu að gera drengur!?" Þá brosir púkinn svo skín í tanngarðinn og segir á fullkominni íslensku "ég er að bíta þig".

Hvað gerir móðir í þessari stöð; með fullkomið afrit af tönnum barnsins á bringunni, í gleðivímu yfir því að loksins sannast að drengurinn er hvorki tregur né málhaltur.

Ég fékk mig allavega ekki til að bíta hann til baka... Hann er búinn að lofa mér að bíta aldrei aftur og svo bakaði mamma vöfflur í tilefni dagsins.

Orð í heilum setningum eru dýrmæt og geta svo sannanlega bjargað fyrir horn.

Logi er mikill skoti í sér og hér í pilsi.

P1010013

Engin ummæli: