laugardagur, júní 16, 2007

Hverju orð fá áorkað.

Logi er, eins og oft vill vera með drengi, seinn til máls. Hann er tveggja ára síðan í desember og ekki farinn að beita heilum setningum. Tja, allavega ekki fyrr en nú í morgun.

Ég var að knúsast eitthvað með hann í morgunsárið um leið og ég tók moggasúdókuið.

Allt í einu skellir Logi sér á bringuna á mér og bítur mig. Mér dauðbrá og hvessti mig, þetta var jú ógeðslega sárt , "hvað ertu að gera drengur!?" Þá brosir púkinn svo skín í tanngarðinn og segir á fullkominni íslensku "ég er að bíta þig".

Hvað gerir móðir í þessari stöð; með fullkomið afrit af tönnum barnsins á bringunni, í gleðivímu yfir því að loksins sannast að drengurinn er hvorki tregur né málhaltur.

Ég fékk mig allavega ekki til að bíta hann til baka... Hann er búinn að lofa mér að bíta aldrei aftur og svo bakaði mamma vöfflur í tilefni dagsins.

Orð í heilum setningum eru dýrmæt og geta svo sannanlega bjargað fyrir horn.

Logi er mikill skoti í sér og hér í pilsi.

P1010013

föstudagur, júní 15, 2007

Að fórna bróðir.

Ég er enn að brosa útí annað yfir þessari sögu. Ákvað þess vegna að segja hana hér.

Við sátum inní stofu; Ég, Sindri, Birta og Logi.

Í sjónvarpinu var Extream makeover home edition. Ég er alger fíkill í allt sem viðkemur húsaviðgerðum. Þarf nefnilega sjálf að taka skúrk í íbúðinni; eldhús, bað og öll gólf.

Extream makeover, home edition eru alveg skelfilegir þættir. Þar er lítið efnað fólk, með mikinn farangur úr lífinu, rifið úr hreysum sínum og flutt inní marghundruð fermetra hallir. Bara reksturinn á svona ferlíki myndi setja mig á hausinn. Áður væri ég samt búin að missa vitið í hreingerningunum. Hvað tekur langan tíma að skúra 800 fermetra marmaragólf?

Allavega. Þetta keyrir nú samt í sjónvarpinu. Kona hvers dóttir er búin að vera týnd í 10 ár, á að fá nýtt þak yfir höfuðið fyrir sig og hin börnin sín tvö.

Ekkert er til sparað. Ævintýraheimur fyrir bæði börnin. Garðhús og hjólbrettabrautir, blómaherbergi með himnasængum og bleikum baðherbergjum.

P1000259 Það fer ekki lítið fyrir Loga sem er að halda tónleika útí glugga. Sindri og ég erum eitthvað að ræða allan þennan íburð í sjónvarpinu en allt í einu tek ég eftir því að Birta er byrjuð að fella tár og orðin vel undin í framan.

Ég tek því strax þannig að sagan um týndu dótturina hafi fengið svona á hana. Reyni að tala við hana um það, útskýra og veita henni öryggi. Þá byrjar Birta að hágrát. "Já en mamma mig langar að eiga heima í svona húsi." "Af hverju getum við ekki átt svona hús?"

Ég reyni að útskýra að þarna sé fólk sem hafi ákveðið að leggjast á eitt um að veita konu, sem hefur lent í því versta sem hægt er að hugsa sér, það öryggi sem felst í góðu húsnæði. Hún týndi jú barninu sínu! Og þannig vildu þau líka þakka fyrir það starf sem þessi kona hafi unnið með því að finna önnur börn sem hafa týnst frá fjölskyldum sínum. En enginn gæti eignast svona án þess að þræla... "já, en getum við ekki bara týnt Loga?" HA? NEI, við viljum það ekki Birta.... "já, en við gleymum honum ekkert og finnum hann svo bara aftur!"

Nei elskan. Við skulum ekkert vera að því.

Birta sjálf jafnaði sig fljótlega og hefur ekki minnst frekar á þessa hugmynd sína.

Myndin er af Loga, að reyna að taka bita af Birtu, eftir að hafa torgað heilum hamborgara á Hróa Hetti.