Já við lifum á merkilegum tímum. Alvarlegasti glæpurinn framinn í spillingarbæli íslenskrar pólitíkur virðist vera að útlending var veittur ríkisborgararéttur á óþekktum forsendum.
Þetta er ekki hvaða útlendingur sem er heldur stúlka sem er kærasta sonar umhverfismálaráðherra.
Það er tvennt sem stendur uppúr hjá mér í þessari umræðu sem fylgir þessari ríkisborgaraveitingu.
Það fyrsta er að við hljótum að lifa við afskaplega litla spillingu ef þetta stendur uppúr rétt fyrir kosningar. Jafnvel þó ástæðan bak við umsóknina væri sú að komast á íslensk námslán, sem er það versta sem ég get ímyndað mér að gætu orðið afleiðingar þessa gjörnings, þá kemur það ekki til með að fella íslenskt samfélag.
Hitt er að gargað er eftir Jónínu Bjartmarz og hún jafnvel krafin um afsögn. Ókey. Hún hefur hugsanlega sýnt siðleysi með að ota sínum tota. En ekki brotið neitt af sér.
Hinsvegar fær formaður allsherjarnefndar frið. Samt er það allsherjarnefnd sem hefur brotið af sér, ef ekki voru forsendur fyrir því að tengdadóttirin fengi ríkisborgararétt. Af hverju er enginn að fara fram á afsögn Bjarna Ben.
Ég er farin að hallast að því að einhver innan banda Sjálfstæðisflokksins hafi lekið þessu máli í þeirri von að síðasta fylgið sem félli af Framsókn færi til Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn á jú erfitt með að halda andliti meðan Samfylkingin laðar að sér mikið fylgi og VG stendur sig vel.
Hér er listi yfir mál sem hafa öll verið kæfð og Kastljósið ekki treyst sér að taka jafn alvarlega og ríkisborgararétt tengdadótturinnar. Enda ekki langt síðan Helgi Seljan byrjaði þar.
Samt finnst mér allt á þessum lista mun alvarlegra mál. En ég er af mörgum talin skrítin.
Ég er örugglega að gleyma einhverju, þið bætið þá bara við listann.
- Eftirlaunafrumvarpið - þeir náðu því fram með blekkingum og lygum.
- Einkavæðing ríkisbankanna.
Framsókn fékk einn og hinn seldur vinum Sjálfstæðisflokksins á spottprís.
- Skipan Hæstaréttaradómara. Náfrændi Davíðs Oddssonar, þá verandi forsætisráðherra, Ólafur Börkur Þorvaldsson var skipaður hæstaréttardómari. Þannig braut Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, jafnréttislög - en situr samt enn. Einnig kom fram að Ólafur Börkur var af Hæstarétti talinn minnst hæfur í stöðuna. Árið eftir var besti vinur Davíðs, Jón Steinar Gunnlaugsson, skipaður.
- Skipan Seðlabankastjóra. Hvaða skrípaleikur var það. Lá við að Davíð skipaði sjálfan sig í starfið. Var þetta samkomulag milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Báðir formenn segja af sér. Nýjum formanni Framsóknar er kippt úr Seðlabankanum til að búa til pláss fyrir Davíð. Halldór fær framkvæmdastjórnarstöðu hjá Norrænu ráðherranefndinni.
- Landsvirkjun. Þar fær helmingaskiptareglan líka að njóta sín. Sjálfstæðisflokkurinn á Friðrik Sophusson forstjóra Landsvirkjunar og Framsókn á stjórnarformanninn. Ég hef líka heyrt hugmyndir um að ráðning Páls Magnússonar eigi hugsanlega að liðka fyrir einkavæðingu.
- Kvótakerfið. Þarf að segja meira?
- Umhverfismati við Kárahnjúka. Dæmt var í Hæstarétti að umhverfismálaráðherra bæri að láta fara í nýtt umhverfismat. Þá voru framkvæmdir löngu hafnar á Kárahnjúkum þrátt fyrir mikil mótmæli vegna skorts á réttu umhverfismati.
- Stuðningur hinna staðföstu þjóða. Þennan stuðning við innrásina í Írak kokkuðu Davíð og Halldór með nætursímtölum án nokkurs samráðs við Alþingi eða utanríkisnefnd Alþingis.
- Ólöglegt samráð olíufélaganna. Sá ekki Olíufélagið að hluta um rekstur skrifstofuhúsnæðis Framsóknarflokksins? Sólveig Pétursdóttir sat áfram sem dómsmálaráðherra þó málið hafi komist upp og eiginmaður hennar forstjóri Skeljungs. Enda tók ár og dag að koma kæru áfram til ríkislögreglustjóra svo hægt væri að hefja rannsókn, hvað þá meira.
- Verktakafyrirtækið Bechtel hlaut Kuðunginn. Á degi umhverfisins taldi
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra Framsóknarflokksins rétt að veita auðhringnum Bechtel sérstaka umhverfisviðurkenning Umhverfisráðuneytisins. Hér er rakin saga Bechtel í Írak. Hún er ekki falleg.
En kannski er þægilegast að láta rosalega illa yfir tengdadótturinni og krefjast afsagnar Jónínu Bjartmarz sem ekki afgreiddi málið úr allsherjarnefnd. Síðast þegar ég heyrði kallað eftir afsögn var þegar Siv Friðleifs hótaði stjórnarslitum ef Sjálfstæðisflokkurinn stæði ekki við auðlindarákvæðið.
Er þetta kannski eitthvað mynstur. Ráðumst að kvenfólki Framsóknar. Þær liggja vel við höggi og á meðan geta karlarnir haldið áfram að koma sér í þægilegar stöður og undirbúa elliárin á kostnað okkar, hvort sem er gegnum eftirlaun eða arð af sölu bankanna.
Hvað sem ykkur finnst - ekki kvarta í mér.