laugardagur, mars 31, 2007

Punktar.

Ætlaði, svona í panik og á síðustu stundu, að koma einum ungling til Svíþjóðar í páskaleyfi.

Á tugþúsundir punkta hjá Icelandair og hugsaði mér gott til glóðarinnar. En nei.

Nógu erfitt að komast úr landi með stuttum fyrirvara þó þú sért til í að borga í peningum meira en hundrað og áttatíuþúsund kallinn fyrir saga klass miða. Hvað þá ef þú ert að leita að ódýru fluggjaldi. Og aldeilis ómögulegt að þykjast ætla að nota punkta.

Bara hlegið að mér. Það þarf nefnilega góðan fyrirvara á punktanotkun. Ekki eitthvað sem hægt er að nota hvenær sem konu sýnist.

Það er gott að vera geggjað frjáls á innilokaðri eyju.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Framboð og eftirspurn hinna frjálsu.

Ég er ekki búin að vera dugleg að blogga. Allt of mikið að gera. Sérstaklega hefur vinna mín hjá skattinum tekið mikinn tíma. Ég þarf líklegast að borga mig inná námskeið til að skilja upp og niður í þeim frumskógi sem skattskýrslan mín og vks.skýrslur eru.

En þó ég hafi ekki verið dugleg að blogga hef ég verið dugleg að bregðast við umræðunni í bloggheimum.

Það er frábært að sjá hvað fólk er almennt ósátt við nýju vændislögin en ótrúlegt að sjá svo marga gaspra um hvar femínistar séu núna þegar virkilega alvarlegt mál tengt jafnréttisbaráttunni kemur upp. Margir virðast nefnilega skilgreina femínista sem einhverja sem þeir eru ósammála en ef svo upp kemur mál þar sem þeir eru sammála femínistum hætta femínistar allt í einu að verða femínistar í þeirra augum. Dálítið merkilegt.

Femínistar hafa barist fyrir því að fá sænsku leiðina í gegn hér á Íslandi. En í skjóli nætur, og að virðist í skiptum fyrir afnám fyrningarfrest á kynferðisbrotum gegn börnum, var vændi lögleitt hérlendis.

Ég fagna afnámi fyrningarfrest og er sú niðurstaða þingheimi til sóma og þá sérstaklega Ágúst Ólafi.

En lögleiðing vændis er skelfilegur skellur.

Sumir eru vel meinandi og fagna lögunum á þeim forsendum að þannig haldist vændi ofanjarðar og að réttarstaða þeirra sem leiðast útí vændi aukist.

En bíðið, hvernig fer vændi neðanjarðar?

Staðreyndin er sú að vændi fer hvorki ofan né neðanjarðar. Það kemur alltaf til með að vera akkúrat þar sem það er.

Vændisþorskar (í Svíþjóð kallast þeir sem kaupa sér vændi þorskar, mér finnst það fínt orð) vilja dyljast meðan þeir þurfa samt að vita hvar vændið er að finna. Á þeirri línu kemur vændið alltaf til með að spila.

Er líklegt, sérstaklega í ljósi þess hversu fá önnur kynferðisbrot ná inní dómstóla og hversu vægir dómar falla, að þeir sem leiðast útí vændi njóti meiri réttarvernd þegar ofbeldið gegn þeim er hvort eða er löglegt og borgað?

Í ljósi þeirra miklu auglýsingar á vændissölu sem hefur mátt finna þrátt fyrir að vændi sem atvinna væri ólöglegt, bæði á netmiðlum og jafnvel í fríblöðunum sem borin eru inná hvert heimili, hef ég litla trú á að banni við auglýsingum verði fylgt eftir.

Common, sjáið bara hvernig þeim gengur að framfylgja banni við áfengisauglýsingum.

Og hvernig á að skilgreina vændi?

Er auglýsing, eins og má finna inna Rauða torginu um stefnumót gegn greiðslu
vændisauglýsing?

Ef tekjur af vændi eru skattlagðar og virðisauki innheimtur er ljóst að 3. aðili er að hagnast af sölunni. Það verður að bregðast við því með tilheyrandi viðaukum við lögin.

Hvernig ætli það annars sé? Ef fyrsti vinningur á næsta kallakvöldi er vændiskona - getur fyrirtækið dregið vsk'inn frá í næstu skilum?

Það er sannað að lagsetning getur breytt viðhorfum og lög um notkun bílbelta er gott dæmi um slíkt. Sama hvað okkur kann að finnast um þau lög er ljóst að viðhorf fólks til notkunar á beltunum breyttist mikið vegna lagsetningarinnar.

Nú finnst flestum útí hött að setja ekki upp bílbeltið.

Það sem ég óttast mest er einmitt hugarfarsbreytingin sem fylgir lögleiðingu vændis.

Allt í einu er búið að skrá lagalegan rétt manneskju til að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Það er orðin þjóðfélagslega samþykkt hegðun.

Þannig og þess vegna eykst eftirspurn eftir vændi.

Þeirri eftirspurn er ekki mætt með hinni hamingjusömu hóru, hún ein og sér annar ekki fjöldanum, heldur er henni mætt með mansali.

Konum sem eru hnepptar í kynlífsþrælkun svo þorskar geti fullnægt lagalegum rétti sínum til líkama kvenna gegn greiðslu. Svo getur þorskurinn talið sér trú um að hann sé að kaupa aðgang að hamingjusömu hórunni sem nýtur svo rosalega góðrar félagslegrar verndar og fer í tékk einu sinni í viku eða what ever.

En þorskurinn er sekur um að skapa eftirspurnina sem elur af sér mansalið.

Ekki er betra að horfast í augu við að barnavændi hefur sýnt sig aukast í kjölfarið á lögleiðingu vændis. Þegar búið er að gefa okkur leyfi til að kaupa okkur aðgang að einhverjum sem er 18 ára, þá er ekki eins slæmt að kaupa þegar viðkomandi er 17 ára og ef það er ókey hvað er eitt ár til eða frá; 16 ára lítur út eins og 17. 15 ára 14 ára......

þetta eru jú bara kjötskrokkar sem ganga kaupum og sölu. Ekki satt!?

Hér má finna sögu lögleiðingar vændis í Victoria Ástralíu. Ekki falleg lesning. Bæði í Hollandi og Danmörku eru þeir farnir að ræða bann við vændi því þeir valda ekki hinu ólöglega vændi sem fylgir í kjölfarið.

Ég er á því að sænska leiðin sé besti kosturinn í baráttunni gegn vændi og mansali.

Margir hafa spurt - "ef baráttan gegn vændi og mansali er að ganga svona vel í Svíþjóð í skjóli þeirra laga af hverju hefur enginn annar tekið þau lög upp". Já þegar stórt er spurt.

Grundvöllurinn fyrir því að sú leið, að gera kaupandann sakhæfan en ekki seljandann, var samþykkt í Svíþjóð var að samstaða náðist á þingi um að skilgreina vændi sem ofbeldi.

Við eigum erfitt með að ímynda okkur að til sé fólk fast í því hjólfari að réttur karla til aðgangs að líkömum kvenna sér dýrmætari rétti kvenna til síns eigin líkama.

Það er þó áhugavert að þegar lögin voru samþykkt í Svíþjóð var um helmingur þingmanna konur. Ég ætlað að leyfa mér að halda því fram að það hafi skipt sköpum.

Hér má finna athyglisverða grein um einmitt þetta. Kannski hún svari fleiri spurningum um af hverju enginn annar hefur farið sænsku leiðina!

En lögin eru svo sannarlega að virka vel í Svíþjóð. Og nú þegar eru önnur lönd að velta fyrir sér lagsetningum í anda sænsku leiðarinnar.

Ég vonast svo sannarlega eftir nýju frumvarpi sem fer þá leið strax á næsta þingi og að það verði samþykkt á þeim forsendum að vændi sé ofbeldi.