þriðjudagur, júlí 31, 2007

Aftur heim.

Jæja. Þá er sumarfríið búið. Hér kemur að ég held lengsta bloggfærslan mín með fullt af myndum - allt til að þóknast mínum yndislegu og kröfuhörðu bloggvinum.

Við áttum indælan tíma í faðmi fjölskyldunnar. Og þetta er sko alvöru fjölskylda sem ég á. Mamma og pabbi alltaf jafn skotin í hvort öðru.

Við erum fjögur systkinin og 14 barnabarnið bættist í hópinn þegar Hermann, litli bróðir, og kona hans, hún I, eignuðust hana Emmu.

Hér má sjá Loga og Birtu dást að þessari nýju frænku.

Eins gott að foreldrar okkar búa í Villa Parkbo og geta tekið á móti öllum þessum skara.
14 barnabörn.

Fyrir utan Emmu eru þessi þrjú yngstu afkvæmin. Það eru Anna, Júlía og Logi - öll 2 ára.
Því miður komst Máni ekki með okkur út og því vorum við bara með 13 stykki þegar best lét. Og það er engin óhappatala þegar verið er að telja börn. Langt í frá.

En af því við erum að minnast á tölur þá fylltist Birta aðdáun þegar amma hennar fór að veifa framan í hana fingrum til að sýna að sextíuogeittár væri meira en sjöár og að þess vegna mætti amma vaka lengur en Birta. Birta sagði með mikilli lotningu: "Vá, hvað þetta eru margir puttar, mikið rosalega ertu heppin að vera ennþá lifandi!" Amma hennar var eiginlega alveg sammála og Birta fékk að vaka lengur.

Falsterbo liggur í suður Svíþjóð, ca. 30 km. frá Malmö. Falsterbo er frægur sumarleyfisstaður og þar er mikil fuglaskoðun stunduð og Falsterbo horseshow árlegur viðburður. Fyrsta daginn okkar í Falsterbo var dálítið haustlegt veður. Frábært fyrir göngutúr í skóginum.

Skógurinn í Falsterbo er dálítið sérstakur því hann liggur allur á sandi. Þess vegna ná þessi stóru miklu tré ekki að festa ræturnar nógu vel. Það þarf ekki mikið veður til að eitthvað af þeim falli.
Næsta dag var veðrið orðið það gott að um kvöldið skellti fólk sér gegnum skóginn niður á strönd.

Ströndin í Falsterbo er töfrum líkust. Hvítur sandur eins langt og augað eygir - í báðar áttir. Allt nesið mælir 40 km strandlengju og á Falsterbo þar 4,5 km. Svona um það bil. Birta lék sér við öldurnar meðan Sindri bróðir hennar og frænkur, Isabella og Amanda, skelltu sér fram af bryggjunni.

Það var oft farið niður á strönd. Það er fátt skemmtilegra en að leika sér við öldurnar.


Við gerðum svo margt annað. Til dæmis sigldum við um kanala Kaupmannahafnar og lærði að þá grófu sænskir fangar. Þó ég hafi starfað í Kaupmannahöfn í mörg ár, og taldi mig þekkja borgina inn og út, fékk ég alveg nýja hlið að sjá. Til dæmis hjólaði ég framhjá Litlu hafmeyjunni á hverjum degi í heilt ár, en fékk aldrei séð þessa hlið á henni fyrr en núna í bátnum.

Ástæðan fyrir því að ég álpaðist í bátinn núna var að okkur var boðið í sextugsafmælið hennar Mönnu. Hún bjó um tíma á Íslandi þegar barn og kynntist þá mömmu minni.

976786839_6ec99138c9

Manna, sem er fremst á myndinni, ákvað að eyða afmælinu sínu með okkur stórfjölskyldunni og bauð okkur í rútuferð um Kaupmannahöfn, heimsókn í höll drottningarinnar, þar sem við meðal annars skoðuðum riddarasalinn, bátsferð, mat í tívólí og armband fyrir öll börnin svo þau gætu tryllst í tækjunum.

Logi tók þetta gleðistökk þegar hann sá að hægt var að skjóta af rifflum. Ég held það séu of mikið andrógen í þessum litla risabolta. Það mátti ekki taka myndir í höllinni - en ég smellti þessari af Birtu á konunglegu almenningsklósettinu.

SV107+018

Síðan var farið heim til Mönnu í mat og drykki þar til lestin var tekin aftur til Svíþjóðar seint um kvöldið. Við gleymum þessum degi ekki í bráð. Manna er ótrúleg kona og flutti mikið sem barn. Bjó meðal annars, fyrir utan á Íslandi, í Rússlandi og Saudi Arabíu.

Hér má sjá Matthildi, Sindra, Isabellu og Amöndu liggja á meltunni eftir kræsingarnar hjá Mönnu.

SV107+064

Meðan frændurnir Adrian, David og Logi losuðu sig við aukaorkuna með léttri glímu.

SV107+053

Aftur í Svíþjóð áttum við indælan dag í Folkets Park. Þar fann Logi þetta mótorhjól og eyddi öllum miðunum sínum í að keyra það - hring eftir hring eftir hring.

976785205_ad27cd5f91

Við fórum í Pildammsparken og sáum íslendingana í brake-hópnum Element keppa í Norðurlandamóti í Brakedansi. Innifalið í þeirri skemmtun voru rapptónleikar. Það var að sjálfsögðu Sindri sem bauð uppá þá skemmtun. Og mikið rosalega var gaman og íslenski hópurinn flottur.

P1020852P1020904

Pildammsparken er einn af mínum uppáhaldsgörðum.

P1020835

Væri ekki yndislegt ef við gætum lífgað uppá t.d. Hallargarðinn og boðið uppá leikhús og tónleika þar í hverri viku allt sumarið? Henda inn litlu notalegu kaffitorgi - et voila! En auðvitað er það erfitt ef ríkið ætlar að hefta drykkju utandyra og reykingar innandyra. Má greinilega ekki blanda þessu tvennu saman.

Frá Malmö er það helst að frétta að "the turning torso" er risinn, architecture_sweden
HSB Turning Torso er 190 metra hár. Samtals er að finna í honum 54 hæðir. Hver hæð er ca 400m². Algjört skrímsli og Malmöbúar virðast ekkert sérstaklega stoltir af honum. Hitt er að verið er að grafa fyrir neðanjarðarlestinni til Köben.

P1020826P1020828

Þeir byrjuðu nú á þessum greftri fyrir um 6 árum síðan og þá var Bera Nordahl enn yfir Malmö Kunsthall. Hún hafði skipulagt mikla og virðulega ráðstefnu sem endaða með ósköpum vegna þess að hávaðinn frá borunum neðanjarðar gerði það að verkum að enginn heyrði mælt mál í skreyttum ráðstefnusalnum. Í dag eru þeir byrjaðir að bora undir skurðstofum spítalans í Malmö og víst ekki hægt að stunda neinar aðgerðir á meðan þar sem allt hristist svo mikið vegna hamagangsins. En það verður ekki amalegt að geta hoppað uppí lest á rölti sínu um Malmö og lent í Köben. Eftir 5 ár eða svo...

Eftir allt þetta skemmtilega, en stutta, ferðalag var aldeilis gott að komast heim aftur.

P1020921

En mikið rosalega söknum við ömmu og afa. Og Sindra sem kemur ekki heim fyrr en eftir 2 vikur.

P1020909

En flugferðir, vopnaleitir, klámsala Eymundsson, bílastæði við Keflavík etc. er efni í annan og leiðinlegri pistil.