sunnudagur, desember 02, 2007

Stöðvum öfgafemínistana

Mikið blöskrar mér framganga sumra félaga minna úr kvikmynda og sjónvarpsbransanum í kjölfar fréttar 24stunda um að nokkrar konur sem kenndu sig við femínisma höfnuðu að koma fram í þætti Egils Helgasonar.

Agli er svo sem vorkunn og hægt að sýna honum smá samúð þegar hann á 10 sekúndum afgreiðir þuluna um hvaða konur hafi komið í þáttinn til hans og tuðar um hvað þetta sé allt erfitt. Hann er þó greinilega ekki að skilja um hvað málið snýst og hefur ekki burði né bein til að hlusta á gagnrýnina og kryfja. Hann er tilfinningavera sem tekur allt of mikið inná sig. Virkilega óþægileg staða fyrir karlmann sem vill kenna sig við hlutverk gagnrýnanda í samfélaginu.

Allt í einu poppar svo Þorsteinn J. fram á völlinn og skrifar í Fréttablaðið í dag pistil undir yfirskriftinni "Kerlingavæl". Ég ætla ekki að fara í saumana á því hvað þetta eru barnaleg skrif af hans hálfu. En þegar hann vænir Drífu Snædal um að hafa ekki haft nein rök fram að færa í Kastljósumræðunni, þar sem hún mætti Agli til að ræða afstöðu sína, þá varð ég plaff!

Hvað á Þorsteinn J. við?

Er hann sem starfsmaður ríkissjónvarpsins að segja samning þess og menntamálaráðuneytisins gagnslaust plagg sem ekki beri að virða? Því að öllu öðru slepptu, kerlingavælinu eins og Þorsteinn kýs að kalla, að mínu mati, yfirvegaðan málflutning Drífu og Katrínar Önnu, er ekki hægt að horfa fram hjá ákvæðum þess samnings eins og Drífa benti á. Þar kveður nefnilega á um að gæta skuli jafnréttis og að kynjahlutföll sé sem jöfnust. Og í alvöru! Hafandi starfað við ýmsa dagskrágerð í gegnum tíðina finnst mér alls ekki að mér vegið þó kynjahlutföll séu gagnrýnd. Tek því fagnandi. Því gagnrýni álít ég ekki af hinu illa, þvert á móti. Kemur mér á óvart að gagnrýnendurnir Egill Helgason og Þorsteinn J. óttist hana.

En vonandi er Þorsteinn J. ekki í alvöru á því að samningin beri ekki að taka alvarlega, þá stendur eftir spurningin; hvað liggur að baki þessum furðulegu skrifum hans í Fréttablaðinu. Og hvort hann vilji meta kröfur um aukinn hlut íslenskrar dagskrágerðar með sömu rökleysu og hann beitir á jafnréttisbaráttuna. Ég man nefnilega sem barn þegar okkur bauðst ekki annað en kanasjónvarpið og þá var um alvöru skort á íslenskri dagskrágerð að ræða. Og náttúrulega óþolandi þessi mælistokkur sem verið er að troða uppá dagskrá ríkisútvarpsins sjónvarps um hlutfall innlendrar dagskrágerðar etc. Give me a brake.

Og strákar. Þið vitið að ég elska ykkur en það er ekki hægt að sitja þegjandi undir þessu. Ég er bara reið útí ykkur núna. Ykkur er velkomið að kíkja í kaffi og skamma mig. Í staðin fæ ég að halda smá fyrirlestur fyrir ykkur. Ég skal baka.

Sverrir Jakobsson er með fín skrif í Fréttablaðinu þar sem hann spyr hverjar öfgaranar séu? Kannski jafnréttiskrafan sjálf?

Kristján B. Jónasson skrifar svo frábæran pistil í morgunblaðið. Stal fyrirsögninni frá honum. Læt þann pistil fylgja hér með.

Ívikunni birtist frétt í 24 stundum
af því að þrjár konur sem allar
hafa haft sig frammi í umræðunni
um jafnréttismál á undanförnum
misserum, Drífa Snædal, Katrín
Anna Guðmundsdóttir og Sóley
Tómasdóttir, ætluðu ekki að koma fram í
Silfri Egils um ófyrirséða framtíð af því að
þær teldu forsendur umræðna þar ekki
jafnréttishugsjóninni til framdráttar. Við
fyrstu sýn vakti þessi frétt enga sérstaka
furðu. Áður hefur komið fram gagnrýni á
val viðmælenda í Silfur Egils á meðan sá
þáttur var á Stöð 2 og þar áður á Skjá einum.
Umræðan um stöðu kvenna í fjölmiðlum
á sér langa sögu og gerðar hafa
verið mælingar hérlendis jafnt sem erlendis
sem sýna að fyrirferð kvenna í umræðum
um samfélagsmál, stjórnmál og efnahagsmál
endurspeglar ekki þá einföldu staðreynd
að konur eru álíka fjölmennar og
karlar. Þetta mál hefur raunar verið svo ítarlega
rætt að bera myndi í bakkafullan
orðalækinn að þylja hér þá miklu litaníu af
með- og mótrökum sem jafnvel eldri frændur
geta þulið í fjölskylduboðum án þess að
fipast: röksemdir á borð við „konur hafa
engar sterkar fyrirmyndir ef þær birtast
ekki í fjölmiðlum“ eða „staðreyndin er að
konur eru í minnihluta í fjármálalífi og
stjórnmálum, er það mér að kenna?“ Allir
vita um hvað málið snýst. Fyrir vikið hefði
líklegast verið frumlegra að hlífa okkur við
enn einni ræðukeppninni um kosti og galla
femínisma og skoða þessa yfirlýsingu sem
vitnisburð um að feðraveldið eigi það sameiginlegt
með Rómaveldi að þurfa að ganga
í gegnum mjög langt hnignunarskeið áður
en það fuðrar upp nóttina þegar varðsveitirnar
gleyma sér við að súpa bjór sem
keyptur var í kjörbúð og hala niður ósíað
porn.
En einmitt vegna þess að við getum þulið
fyrirfram upp allt sem femínistarnir og
gagnrýnendur þeirra munu segja ætti umræðan
að vera óþörf. John Stuart Mill tíndi
þegar á 19. öld til í riti sínu um Kúgun
kvenna mjög einföld rök fyrir jafnrétti sem
maður skyldi álíta að væru komin eitthvað
áleiðis inn í hausinn á þeim velmenntuðu
ungu mönnum sem nú jarma í slíkum hysteríukór
á netsíðum um hættur „öfgafemínismans“
að eyfirska Lúkasarguðspjallið
frá því í sumar virkar næstum eins og
mjálm í samanburðinum. En það er nú aldeilis
ekki. Sú einfalda ábending Mills að það
sé sóun á mikilvægum hæfileikum og kröftum
að útiloka annan hluta samfélagsins frá
gæðum sem hinn hlutinn telur sjálfsögð er
einfaldlega ekki viðurkennd skoðun í
ákveðnum þjóðfélagshópum. Strax sama
dag og fréttin í 24 stundum birtist snjóaði
inn í netheima slíkum hópeflisblammeringum
um „öfgafemínistana“ Katrínu
Önnu en einkum þó Sóleyju Tómasdóttur að
maður varð hálf tómur í framan yfir heiftinni
og rætninni. Það er einfaldlega absúrd
að sjá hlið við hlið á bloggsíðum og vefsetrum
vandað efni úr pennum þessara ungu
karlmanna og síðan hatursrullur sem hafa í
mesta lagi gildi sem skoðunarefni á sviði
sálfræðinnar.
Samt hafa þær Katrín Anna Guðmundsdóttir
og Sóley Tómasdóttir í raun ekki
sagt og gert annað en það sem góðir og
vandaðir menn, hófstilltir andstæðingar
„öfgafemínismans“ á borð við Þorstein Siglaugsson
hagfræðing (tsiglaugsson.blog.is),
sem þjóðinni er kunnur sem maðurinn sem
reiknaði Kárahnjúkavirkjun út af borðinu
og Guðmund Magnússon sagnfræðing
(dv.is), sem þjóðinni er m.a. kunnur sem
höfundur bókarinnar um Thorsarana,
myndu hafa ráðlagt öðrum í sömu stöðu:
Maður haslar sér sinn eigin völl áður en
hólmgangan hefst. Annars eru átökin alltaf
á forsendum andstæðingsins. Þetta er
grunnatriði í almannatengslum og stjórnmálabaráttu.
En þessir herramenn auk
tveggja tuga annarra minni spámanna ýja
engu að síður sterklega að því að „öfgafemínisminn“
sé fyrir vikið skaðlegur frelsi
borgaranna, já og sumir, einkum margir
hinna minni spámanna, halda því raunar
blákalt fram að hann ógni samfélagsgerðinni.
Það eru engin ný tíðindi að þeir sem
eru sannfærðir um kosti frjáls markaðsbúskapar
og ókosti hverskonar íhlutunar
hins opinbera í líf og starf borgaranna líti
svo á að félagslegar röksemdir hópa í réttindabaráttu
séu varhugaverðar sósíalískar
hugmyndir sem hafi aukna forræðishyggju
og ríkisafskipti að leiðarljósi. Frjálsir einstaklingar
og haftalausir séu í fræðilegum
skilningi jafnréttháir hver öðrum og því sé
jafnrétti best tryggt með sem minnstri
íhlutun hins opinbera um þessi mál. Þetta
er falleg hugsjón sem er þess meira en verð
að hún sé útskýrð og varin. En af hverju er
mönnum um megn að setja þessar skoðanir
fram skilmerkilega og heimfæra þær upp á
aðstæður í okkar samtíma? Af hverju
bregðast menn við því sem femínistar á
borð við Sóleyju Tómasdóttur hafa að segja
með úlfúð, útúrsnúningi, háði, svívirðingum
og einelti? Hafa þeir miður góðan málstað
að verja? Því þegar rökþurrðin ein blasir
við setjast karlmenn með þrefalt háskólapróf
niður og fá klapp á bakið og ferföld
húrrahróp hjá félögum sínum úr ungliðahreyfingu
stærsta stjórnmálaflokks landins
fyrir að skrifa svona nokkuð (þetta á náttúrlega
að vera ofsafyndið): „Áður en ég
skelli mér í Valhöll að horfa á grófar klámmyndir
og borða fimm þúsund kalla með
100 ríkustu karlmönnum Íslands vil ég
beina þeim tilmælum til Sóleyjar að slappa
aðeins af.“ (Deiglan.com, 28.11.2007) Finnst
forvígismönnum ungra og aldinna sjálfstæðismanna
og sjálfstæðiskvenna þetta virkilega
frábært framlag til kynningar á hugmyndum
þeirra og hugsjónum?
Eftir Kristján B. Jónasson
kbjonasson@gmail.com