laugardagur, janúar 05, 2008

Hvar er medalían mín?

Lifði af enn eitt árið og enn engin verðlaun í boði.

Eftir sérstaklega normal dag, þeytings milli skóla, dagheimila, vinnu, súpermarkaða og tollstjóra, ímynda ég mér alltaf að ég hljóti nú að ná markinu. Að í dag gerist það. Ég rjúfi markborðann og á móti mér komi fjallmyndarlegur kappi á háum hælum með bikar fyrir mig, gullmedalíu og skjöld til að hengja uppá vegg.

Þá gæti ég slappað af, brosað í gegnum tárin og hugsað hvað þetta var nú allt þess virði.

En nei, enn eitt árið og enginn borði, engin medalía, bikar né skjöldur. Ekki einu sinni riddarakross.

Veit Forseti íslands hvað ég þurfti að leggja á mig þegar íbúðin var sett á uppboð sama dag og sá litli átti tíma hjá tannlækni, einn var með ælupest og deadline var á skilum til Nordisk Film? Ha?

Þegar ég tek á móti Oscarnum ætla ég að öskra það. Eins hátt og ég get og barasta upp á íslensku: MARK!!!! Það verður minn bikar. Mín medalía. Minn skjöldur.

Nema þeim takist að koma mér á geðlyf fyrir athöfnina.

Þá mun ég hvísla, ofurlágt og í gegnum ekkann; "I want world peace and I love children. I want to thank my father and mother and my children. Hi children!" Og svo veifa ég börnunum. Þá hleypur Tarrantino uppá sviðið og kallar; "Please get this woman a table to dance on. She's Icelandic" Og þeir feida upp óskarstónlistinni, sem á að senda fólki eins og mér skýrt merki um að hafa talað of lengi , taka af mér VISAð og senda burt frá Ameríkunni. Og hvað get ég þá sagt við Tollstjóra? "I'm sorry; no VISA do you take an Oscar?"

Allavega.

Það eru bara svona hlutir sem ég er að pæla á nýju ári.

Og svo hvort ég eigi að nenna að elda kjúkling á morgun.