sunnudagur, apríl 20, 2008

Bloggstífla

Ég veit að amma og afi í Falsterbo vilja meira blogg - en phúhe. Ég er bara með bloggstíflu og upptekin í brakedansandi bílagjörningum... En hér nokkrir punktar.

Helgin búin að vera fín. Fór aftur á sjöund í Þjóðminjasafninu - það er svo gaman að fá sér kaffi þar með krakkana. Skoða sýningarnar og leika útí góða veðrinu.



Síðan fórum við á Kjarvalsstaði þar sem útskriftarsýning LHÍ er haldin. Frábær staður Kjarvalsstaðir og flott sýning.

Mest hafði ég gaman af aktivistaverkinu þar sem í boði var losun á hverju sem er; áhyggjum, áhyggjuleysi, erfiðum ákvörðunum etc. Allt á visa-raðgreiðslum.
Iðnhönnunardeildin sló í gegn hjá mér. Til hamingju frú Sigríður með frábæra deild.
Logi og Birta hlupum um garðinn og skemmtu sér konunglega.

Birta var ekki hrifin af sýningu vídeólistaverka. Bara ógeðslegir alsberir karlar og kerlingar, eins og hún orðaði það. Ég varð sjálf fyrir vonbrigðum með þann hluta sýningarinnar. Nekt var þar í nokkrum verkum, en ofboðslega klisjukennd. Nakti karlinn var með rassinn í okkur, klaufalegur og umkomulaus í snjónum, meðan nakta kerlingin í öðru verki var með kynferðislega tilburði litaða af klámvæðingunni. Ég hef oft sagt það og segi það enn; nekt er afskaplega vandmeðfarin og mikilvægt að muna þau hughrif sem hún vekur hjá okkur sem erum vön henni úr hinu almenna rými. Ef það á að nota hana í listrænum tilgangi verður að hugsa aðeins út fyrir boxið. Ef deila á notkun nektar í hinu almenna rými er lítið gagn í að nota sömu birtingarmyndina; þá verður hún aldrei annað en samdauna hinum myndunum. Fyrir mig vantaði allt pointið í þessa nekt.

Að öðru.

Ég er búin að taka ákvörðun; ég er hætt að versla við lágvöruverðsverslanir. Versla minn fisk í fiskbúðum, mitt kjöt í Melabúðinni og rest í Kjötborg.

Og vitið þið hvað; það verður ekkert mikið dýrara. Ég versla alveg ótrúlega mikinn óþarfa í lágvöruverðsverslununum og oftast allt of mikið af mat sem endar með að skemmast heima. Það er vegna þess að ég legg ekki á mig slíka verslunarferð oftar en 2-3 í mánuði. Verð pirruð og stressuð í því umhverfi og innan um starfsmenn sem fátt vita um vörur og þjónustu viðkomandi verslunar.

Í Kjötborg nýt ég þess að fara á hverjum degi. Yndislegt fólk, kaupmenn sem maður er í beinum samræðum við og getur haft áhrif á vöruval.
Það eru lífsgæði fólgin í því að eiga kaupmann á horninu og fá að njóta þeirrar hverfismenningar sem það skapar. Hvet alla til að endurskoða innkaup sín og ath. hvort ekki sé gróði í því að styrkja sinn kaupmann.