Við skelltum okkur á bíó. Þrívíddar bíó í Kringlunni. Meet the Robinsons var skemmtileg upplifun fyrir krakkana. Fyrir utan Borgarleikhúsið fann Birta svo þetta flotta skilti.
Það var gáfuð kona sem sagði mér um daginn; "það að loka úti birtu er eins og að henda góðum mat". Þetta finnst mér nokkuð til í og því ekki farin að setja upp gardínur heima hjá mér ennþá.
Það er erfitt að fá reglu á börnin eftir sykursukk páskahelgarinnar. Enda fengu þau allt of mörg páskaegg.
Skemmtilegt innlegg í tannlæknaumræðuna, - páskarnir. Risavaxin súkkulaðiegg troðfull af þykkum seigum karamellum. Ætli páskarnir séu árshátíðir tannlækna?
Ég reyndi mitt besta að láta karamellurnar hverfa en það var ekki að ganga of vel.
Logi fékk besta málsháttinn: "Allir eldar brenna út um síðir"
Sindri og Máni voru ekki eins slæmir í sælgætisátinu. Farnir að kunna sér hóf. Ég hinsvegar stakk hausnum ofan í risastóran konfektkassa og uppskar risavaxna bólu á mitt ennið. Pínulítið eins og ég sé að breytast í einhyrning.
Vona að Prada fari að skella á okkur blæjum. Svo miklu þægilegra og umhverfisvænna en allt meikuppið sem þarf til að dylja óskapnaðinn. Ekki að ég nenni að standa í því.
Svo er ég búin að vera að fylgjast með konusýningakynningum á skjá einum. Og ég bara skil þetta ekki.
Þarna eru myndarlegar stúlkur sem koma fram og segja okkur frá skemmtun sinni, draumum og framtíðaráformum. - En ekkert af því tengist fegurðarsamkeppnum.
Þær ýmist njóta þess að spila fótbolta eða láta sig dreyma um að reka hundadagvist eða verða lögfræðingar - ég meina hvað eru þær að eyða tíma í að spranga þarna um á naríunum?
Allavega þá er ég farin að sofa og ætla að láta mig dreyma kaupmáttinn. Því ekki er ég að lifa hann.
Góða nótt.