Og Ingibjörg Sólrún var töff í Kastljósinu í kvöld.
Guðjón frjálslyndi var eins og yfirgefinn fylgdarmaður, dálítið súr og átti erfitt með að horfa á Ómar. Enginn skilur Frjálslynda. Allir misskilja þá. Hann var dálítið æstur. Ég hafði áhyggjur af blóðþrýstingnum hans þegar útlendingaumræðan fór af stað.
Ómar vonast til að ná grænu fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Ég vona það svo sannarlega. Ég er ekki grænn hægrimaður og get því ekki svarað fyrir hvort Ómar og Bubbi duga til. Hefðu þeir ekki betur sett Margréti í formannssætið? Þá hefðu þeir kannski átt séns í hægri konur sem ekki vilja bakka upp karlaveldið í Sjálfstæðisflokknum og frjálshyggjustefnu þess.
Steingrímur talaði um kvenfrelsi og að hann vilji ekki virkjanir.
Jón Sigurðsson lýðræðissinni hafði engar áhyggjur af því að Framsókn sem stjórnar bæði landi og borg og mælist samt með undir 10% fylgi. Enginn virðist kunna við að benda honum á að hann sjálfur er ekki einu sinni kjörinn þó hann sitji nú sem ráðherra. So much for lýðræði.
Geir var dálítið Chance the gardener í Being There talandi um vöxt og næringu. Hann vill að konur kjósi þá - ekki að hann hafi neitt að bjóða þeim. Honum finnst bara að þær eigi að kjósa þá. Okurvextir og bullandi verðbólga finnst honum ekki vandamál meðan kaupmátturinn er í lagi. Kaupmáttur sumra.
Ingibjörg er ekki bara búin að stunda nám og kemur með ferskt loft inní íslensk stjórnmál, hún hefur líka sannað sig eftir að stjórna Reykjavík í mörg ár og halda þar utanum um R-listann. Þar lét hún verkin tala og þegar hún yfirgaf borgina og tók við Samfylkingunni var hún talin traustasti leiðtoginn í öllum skoðanakönnunum.
Þá hófst rógsherferðin. Og því miður hafa of margir hlustað. Væri hollt fyrir fólk að hugsa vel og lengi um hvað þeim raunverulega finnst um ISG. Líti á staðreyndir. Vegi og meti.
Ég hvet fólk til að hlusta á Kastljósið. Ingibjörg sannar þar að hún þjónar lýðræðinu og jöfnuði í samfélaginu.
Hér er hægt að kynna sér stefnu Samfylkingarinnar nánar.
Stefna Samfylkingarinnar í helstu málaflokkum.
Vil ég þar sérstaklega benda á kafla um jafnréttismál
9. Jafnrétti kynja
Kynjajafnrétti og kvenfrelsi er ein af meginstoðum jafnaðarstefnunnar. Til þess að samfélag teljist lýðræðislegt þarf að tryggja öllum jafna þátttöku í mótun þess. Sérstakar aðgerðir þarf til að jafna hlut kynjanna.
Forysta og ábyrgð á jafnréttismálum skal falin forsætisráðuneyti til að tryggja viðunandi árangur. Jafnréttislög og –áætlanir stjórnvalda eiga að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Það þarf að taka skýrar á frumkvæðisskyldu stjórnvalda til aðgerða. Endurskipuleggja á skipulag jafnréttismála með það að markmiði að gera stjórnsýslu jafnréttismála skýrari. Fjölga verður konum í opinberri ákvarðanatöku, stjórnum, nefndum og ráðum hjá hinu opinbera. Brýna þarf fyrir fyrirtækjum og félögum að fjölga konum í ábyrgðarstöðum og skili það ekki skjótum árangri ber að íhuga lagasetningu um jafna stöðu í stjórnum. Kynbundnum launamuni verður að útrýma með samstilltu átaki ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins.
Unga Ísland - aðgerðaráætlun í málefnum barna.
Nýja atvinnulífið - tillögur til eflingar nýsköpunar.
Fagra Ísland - rammaáætlun um náttúruvernd.
Neytendastefnan - lækkum greiðslubyrði heimilanna.
Samþykkt kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.
Ég trúi því að flest séum við jafnaðarmenn innan við beinið.
Horfumst í augu við það og fellum ríkisstjórnina.
Kjósum Samfylkinguna og komum traustri, reynslumikilli konu í forsætisráðuneytið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli