Var að koma af Bessastöðum. Freyðivín í glas, kransamunnbiti og skemmtilegur félagsskapur. Mest var gaman að fylgjast með andköfunum sem amerískir gestir tóku þegar Kaurismaki hrósaði forsetanum fyrir það að hafa ekki breyst eftir að hann varð forseti. Hann hefði verið kommi og væri enn kommi. Ameríkanarnir supu hveljur og frusu og roðnuðu. Forsetinn brosti umburðalyndur og þá tísti í Kaurismaki.
Það heillar erlenda gesti alltaf jafn mikið að ekki skuli vera víðtæk öryggisgæsla og vopnaleit áður en forsetanum er mætt. En eins og Ólafur Ragnar segir gjarna í ræðum sínum; við viljum líta á gesti okkar komandi í friði þangað til annað sannast.
Það er líka einstætt að geta vafrað frjálst um Bessastaði og meðhöndlað sverð og kuta sem gefnir hafa verið, oft af erlendum aðilum.
Hér er Vera Sölvadóttir að munda víkingasverði. Koolisti.
Fyrr um daginn stjórnaði ég umræðum í Norræna húsinu. Naflaskoðun er alltaf af hinu góða og mikilvægt fyrir kvikmyndagerðarmenn eins og aðra, að skoða verk sín og hugmyndir útfrá mismunandi breytum. Um hverjir sátu í pallborði má lesa í fyrri færslu minni, og umræðurnar sem fylgdu voru fjörugar.
Margir þekktir kvikmyndagerðarmenn voru mættir á staðinn, sem allir eiga það sameiginlegt að hafa lagt hug og hjarta í íslenska kvikmyndagerð. Karlar jafnt sem konur.
Til umræðu kom skilgreiningarvald, bæði leikstjóra og áhorfanda. Platón kom uppá borð með það að listin væri lygi sem hann síðar snerist hugur um og sagði þá listina viðleitni til að segja sannleikann. Kvikmyndir skapa raunveruleikann. Listrænt forræði í ljósi samframleiðslusamninga var rætt. Framlag kvenna fékk þó mesta plássið. Konur eru margar í kvikmyndagerð, en oft á bak við tjöldin. Konur eru ekki nógu sýnilegar og eru fámennar meðal handritshöfunda og leikstjóra. Konur eiga að hafa sama aðgang að fjármagni, en eru ekki að sækja um. Hugsanlegar ástæður voru ræddar fram og aftur. Bæði skilgreiningavandi, skortur á fyrirmyndum og skortur á viðurkenningu. Niðurstaðan varð sú að kyn skiptir máli en meðvitund skiptir mestu máli. Eða eins og Katrín Anna orðaði það svo skemmtilega; þó kynin myndu kjósa það sama skiptir máli að bæði karlar og konur hafi kosningaréttinn.
Ég fór út meðvitaðri og sannfærðari um að íslensk kvikmyndagerð á eftir að blómstra enn betur. Það er stórt skref í rétta átt að hægt sé að ræða þessi mál á vitrænum nótum, með hag kvikmyndagerðar í brjósti. Það getur eingöngu skilað kvikmyndasögunni fjölbreyttari sögum og karakterum.