Hann fæddist með miklu brambolti drengurinn sem varð 3 ára í gær.
Það var með ólíkindum þessi dagur.
Ég fékk slagæðablæðingu og allt í einu fylltist gatan okkar af 2x sjúkrabílum, sendiferðarbíl (sem var að koma með nýtt rúm sem var jólagjöfin til hennar Birtu) og 6 metra langri limmósínu.
Limmósínan var mætt því Sindri var að halda uppá afmælið sitt og hafði sparað pening og fengið smá hjálp til að leigja hálftíma akstur með afmælisgestum sínum.
Ég man alltaf þegar hann sagði mér að eðalvagnafyrirtækið hefði samþykkt að þau fengju gos í kristalglösin, í staðin fyrir kampavín, og þyrftu ekki að borga neitt meira fyrir það.
Enginn komst aftur á bak eða áfram í götunni og ástandið of farsakennt fyrir bíómynd.
Allavega, Logi var tekinn með bráðakeisara og allar varúðaráðstafanir settar í gang. En
hann virtist ekki hafa haft meint af látunum. Var rólegur og
glaðlyndur.
Í dag, 3 árum seinna, er hann Þórbergur Logi enn jafn glaðlyndur. En rólegur er hann ekki.
Þær eru teljandi á fingrum annarrar handar myndirnar sem ég hef náð af Loga án þess að hann sé brosandi eða skellihlæjandi.
Og óteljandi myndir á ég af honum, eiginlega í lausu lofti.
Og hér er mynd af honum að gefa mér morgunknús. Algjört yndi og ég elska hann svo ógurlega mikið.
Þau eru þrjú í viðbót sem ég elska jafn mikið og þar á meðal hann Sindri minn.
Á þessari mynd er hann 8 ára en á afmæli á morgun og verður 15 ára.
Þó ég hafi gaman og ánægju af því að sjá hann vaxa og dafna og stefna
hratt í fullorðinn einstakling er það líka tregablandið.
Desemberbörnin mín! Logi og Sindri TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!!!