mánudagur, febrúar 05, 2007

Af gefnu fordæmi og ægilegum eyðimörkum.

Ég er orðin svo þreytt á þessu fordæmiskjaftæði sem tröllríður okkur nú sem helsta ástæða þess að dómara vernda barnaníðinga. Aumingja dómararnir heyrist vælt úr ýmsum áttum þegar almenningur ákveður að horfa stíft og strangt til þeirra. Það virðist hinsvegar gleymast að það eru þeir sem settu fordæmin til að byrja með og þeir einir geta breytt þeim.

Sólveig Pétursdóttir lýsti því yfir, var það 1999 eða 2000 þegar refsiramminn var hækkaður í 12 ár, að boltinn væri nú í höndum dómara sem yrðu að byrja að setja fordæmi og nýta refsirammann! - Það gerðist ekki. Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari hefur bent á að mikil fastheldni dómstóla á fordæmi séu varhugaverð. Hún segir að jafnræðissjónarmið megi ekki valda stöðnun og þau birtist í fleiri myndum en þeirri að sama brotalýsing þýði sömu refsingu. Sigríður segir umhugsunarvert hvort hugsanlega sé verið að brjóta jafnræðisregluna með því að beita lögmæltum refsiákvæðum af fullum þunga í málum eins og fíkniefnamálum en ekki í öðrum, til dæmis kynferðisafbrotamálum. Já ræðum brot á jafnræðisreglunni!? Hvernig getur það talist alvarlegra brot að ræna Byko en að misnota 5 stúlkubörn eins og Ólafur Barði Kristjánsson gerði? Árni Johnsen er greinilega talinn hafa framið verri glæp en maður sem skilur eftir sig börn með áfallaröskun sem sér ekki fyrir afleiðingarnar af - Hæstiréttur kvað yfir Árna tvö ár óskilorðsbundin. Ógeðslegt. Hvaða skilaboð er verið að senda út til barnaníðinga og þeirra barna sem fyrir barði þeirra hafa orðið og eiga eftir að verða fyrir?

Þetta er ægileg eyðimörk. Þeim hefði verið í lófa lagt að skapa fordæmi og þyngja dóm yfir Ólafi Barða Kristjánssyni hann misnotaði jú fimm stúlkubörn; ekki eitt, tvö, þrjú eða fjögur. Hann segir að hann hafi bara verið að refsa börnunum og sýnir enga iðrun. Hann framleiddi sitt eigið barnaklám. Halló - hvar er fordæmið? Það er auðvelt að finna 18 mánaða dóma fyrir sömu glæpi bara annaðhvort færri börn eða ekkert klám eða iðrun. Fordæmi er í þessu tilfelli orðhengilsháttur.

Það er ekkert eðilegt við það að í þessu samfélagi er að finna fólk, karla og konur, sem vinnur hörðum höndum, oft launalaust en alltaf launalítið, við að uppræta kynferðislegt ofbeldi meðan í hæstu valdastöðum sitja þessir kallar á súperlaunum og vinna gegn vinnu hinna og bera fyrir sig fordæmi sem enginn hefur sett annar en þeir sjálfir. Hvern er verið að vernda?


sunnudagur, febrúar 04, 2007

Í boði hússins.

Börnunum mínum tókst að rústa íbúðinni fyrir hádegi. AB-mjólk í teppinu inní stofu, kókómjólk í sænginni. Taflmenn útum allt og það er ekkert þægilegra að stíga á peð en kóng.

Ég var að hugsa um að flippa; gefast upp selja allt flytja til Indónesíu og stöðva flóðbylgjur. En ákvað að kveikja á Agli Helga. Það hefur oft létt mér lífið að geta rifist við hann og viðmælendur hans gegnum sjónvarpið.

Jóhanna Sigurðar og Jónína Ben brilleruðu í Silfrinu meðan það var skelfilegt að hlusta á Jón frjálslynda.

Ekki tekst honum að telja mér trú um að laununum okkar stafi hætta af erlendu vinnuafli. Er ég með stimplað “Fífl” stórum stöfum á enni mér? Ekki var það erlent vinnuafl sem settu launafólk í þá stöðu sem það er í á Íslandi í dag? Ekki voru það innflytjendur sem komu okkur mörgum aftur á eyrina í formi, lausráðninga með tilheyrandi virðisaukaskattsskyldu og réttindaleysi. Mér finnst það meiri háttar óábyrgt ef Frjálslyndir ætla að selja fordóma sína sem syndaaflausn fyrir ríkisstjórnina.

Og hvað með samkeppnislög? Af hverju virðast þau ekki ná til bankanna? Rannsókn á okri og græðgi bankanna var lausn Jóhönnu og Jónínu. Styð það. Það mætti skella skattinum með til rannsóknar. Í umræðunni um okurvexti gleymist að skoða þá vexti sem leggjast á fólk ef það ekki borgar skatt og vask samdægurs.

Allavega, ég er sammála þeim sem segja aðferðarfræði Jónínu Ben; “spill it all” vera komna á hálan ís en óneitanlega er hún fræðandi og skemmtileg. Mér finnst Jónína frábær. Svona eins og Hrói Höttur upplýsingastreymisins. Myndi kjósa hana ef það stæði til boða. Ég er ekki frá því að Egill sé jafn skotinn í Jónínu og ég.

Jón frjálslyndi kom umræðunni yfir í það sem hann kallaði hryllilega forsíðu Morgunblaðsins.

Hvaða feimnismál eru dómar hæstaréttar orðnir? Það má ekki birta myndir af hæstaréttardómurum og lýsa yfir óánægju með dóma. Jón vildi meina að dómarar ættu að njóta sérstakrar verndar; hvað meinar hann? Hvað með dómara í baugsmálinu? Á að líta á myndbirtingar af þeim og umræðu um dóma sem persónulega árás á þá? Dóm götunnar? Kjaftæði. Það er ekki skrítið að við hökkum í sama ójafnréttinu þar sem konur og börn eru ver varin með lögum en eignir og skattasvindl.

Í Kastljósinu í fyrrakvöld náðu Hannes Hólmsteinn og Karl Th. Birgisson saman í gagnrýni sinni á Morgunblaðið. Hefði getað orðið afskaplega fallegt augnablik ef ekki hefði verið fyrir aumingjahrollinn sem sótti á mig. Þeir hófu til hæða gagnrýni Andríkis á Morgunblaðið sem segir það orðið pappírsútgáfu af Veru. Afar slæm þróun að þeirra dómi. Þar sé ekki fjallað lengur um alvöru fréttir, bara einhverjar vandamálafréttir um jafnréttismál, kynferðisbrot og annað misrétti. Já sussum svei. Hvað ætli þeir telji alvöru fréttir? Fréttir af því hvað næsti kall græddi mikið og hvað fræga fólkið hafi verið fallegt á síðustu árshátíð viðkomandi fjölmiðils?

Er ekki hægt að finna góða samlíkingu á því þegar þrír kallar hittast og ræða málin á þessum nótum í ríkisstyrktum fjölmiðli? Eins og rafræn útgáfa af Bróðurkærleik Frímúrarareglunnar? Þetta er í boði hússins og frjálst fyrir Andríki, Hannes og Kalla að nota.

Þakka Agli svo fyrir mig. Mér líður betur og get nú einbeitt mér að þrifum.