mánudagur, febrúar 05, 2007

Af gefnu fordæmi og ægilegum eyðimörkum.

Ég er orðin svo þreytt á þessu fordæmiskjaftæði sem tröllríður okkur nú sem helsta ástæða þess að dómara vernda barnaníðinga. Aumingja dómararnir heyrist vælt úr ýmsum áttum þegar almenningur ákveður að horfa stíft og strangt til þeirra. Það virðist hinsvegar gleymast að það eru þeir sem settu fordæmin til að byrja með og þeir einir geta breytt þeim.

Sólveig Pétursdóttir lýsti því yfir, var það 1999 eða 2000 þegar refsiramminn var hækkaður í 12 ár, að boltinn væri nú í höndum dómara sem yrðu að byrja að setja fordæmi og nýta refsirammann! - Það gerðist ekki. Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari hefur bent á að mikil fastheldni dómstóla á fordæmi séu varhugaverð. Hún segir að jafnræðissjónarmið megi ekki valda stöðnun og þau birtist í fleiri myndum en þeirri að sama brotalýsing þýði sömu refsingu. Sigríður segir umhugsunarvert hvort hugsanlega sé verið að brjóta jafnræðisregluna með því að beita lögmæltum refsiákvæðum af fullum þunga í málum eins og fíkniefnamálum en ekki í öðrum, til dæmis kynferðisafbrotamálum. Já ræðum brot á jafnræðisreglunni!? Hvernig getur það talist alvarlegra brot að ræna Byko en að misnota 5 stúlkubörn eins og Ólafur Barði Kristjánsson gerði? Árni Johnsen er greinilega talinn hafa framið verri glæp en maður sem skilur eftir sig börn með áfallaröskun sem sér ekki fyrir afleiðingarnar af - Hæstiréttur kvað yfir Árna tvö ár óskilorðsbundin. Ógeðslegt. Hvaða skilaboð er verið að senda út til barnaníðinga og þeirra barna sem fyrir barði þeirra hafa orðið og eiga eftir að verða fyrir?

Þetta er ægileg eyðimörk. Þeim hefði verið í lófa lagt að skapa fordæmi og þyngja dóm yfir Ólafi Barða Kristjánssyni hann misnotaði jú fimm stúlkubörn; ekki eitt, tvö, þrjú eða fjögur. Hann segir að hann hafi bara verið að refsa börnunum og sýnir enga iðrun. Hann framleiddi sitt eigið barnaklám. Halló - hvar er fordæmið? Það er auðvelt að finna 18 mánaða dóma fyrir sömu glæpi bara annaðhvort færri börn eða ekkert klám eða iðrun. Fordæmi er í þessu tilfelli orðhengilsháttur.

Það er ekkert eðilegt við það að í þessu samfélagi er að finna fólk, karla og konur, sem vinnur hörðum höndum, oft launalaust en alltaf launalítið, við að uppræta kynferðislegt ofbeldi meðan í hæstu valdastöðum sitja þessir kallar á súperlaunum og vinna gegn vinnu hinna og bera fyrir sig fordæmi sem enginn hefur sett annar en þeir sjálfir. Hvern er verið að vernda?


Engin ummæli: