sunnudagur, desember 09, 2007

Gat í eyra.

Mætt fólk fann skítablett á hvítum leðursófa í hýbýlum Britney Spears. Mér skilst að þetta sé áhyggjuefni og alls ekki fyrir viðkvæma.

Ég yrði líklegast handtekin ef sama fólk kíkti í heimsókn til mín. Hér hefur geisað bæði gubbu- og niðurgangspest og góður hluti þess sem upp, og niður, gekk lenti á kókosteppinu.

Þetta byrjaði allt þegar ég mætti til frumsýningar á heimildarmynd Stígamóta; "Ekkert stoppar Stígamót". Frábær mynd sem gefur innsýn í þann kraft sem má finna á Stígamótum. Mér hlotnaðist sá heiður að fá að klippa myndina.

Allavega. Sýningu er lokið og rétt verið að hella í kampavínsglösin þegar barnapían mín, 15 ára unglingur, hringir í öngum sínum. Logi kominn með niðurgang. He just happened to be - bleyjulaus á kókosteppinu.

Ég þaut út og náði varla að kveðja og þakka almennilega fyrir mig. (Vert að minnast á að myndin verður sýnd á opnu húsi hjá Stígamótum núna á þriðjudaginn 12.12 í tilefni af 16 daga átak gegn ofbeldi)

Hefur einhver reynt að þrífa svona drullu úr kókosteppi? Ekki reyna. Það er ekki hægt.

Síðan hafa nokkrar aðrar pestir sótt á heimilismenn. Gubbupest og "ég get víst drukkið áfengi" pest og einn tyggjóklessufaraldur. Þá gekk ég heilt kvöld með ullarteppi fast í hnakkanum.

Einhver, átta ára stúlka með fimleikaáráttu, "lenti í því" að missa húbabúba-tyggjó þegar verið var að hoppa í sófanum. Tuggin klessan lenti óséð í ullarteppinu, sem ég svo kúrði með í sófanum seinna um kvöldið.

Ég endaði með að klippa teppið úr hausnum á mér og pantaði tíma hjá Rauðhettunni honum Magna. Hann snoðaði mig. Ég er afskaplega ánægð. Fannst þetta samt ekki ódýrt klipp en skipti um skoðun í tannlæknaheimsókn í síðustu viku.


Um síðustu helgi fór ég á frábæra tónleika BB&Blake. Þetta var reyndar Vodka kynning sem ég eins og fleiri fengu boðskort á. Við fengum þó ekkert vodkað. Það var bara fyrir þá sem pöntuðu borð og borguðu 45 þúsund kall fyrir kynninguna!?

En BB&Blake voru þarna með sína fyrstu tónleika. Það var vel þess virði að leggja á sig Oliver fyrir þá uppákomu. Vera var bara flottust og Maggi eins og alltaf; pottþéttur.

Smellti mynd á símann minn.

Svo var frumsýning á Duggholufólkinu. Birta og vinkona hennar hún Lóa komu með mér. Þær skemmtu sér rosalega vel. En Birta var ekki ánægð með drauginn. "mamma næst þegar þú tekur mig með í vinnuna vil ég ekki að það sé svona draugur þar"!

En myndin er enn rædd heima hjá mér. Að mínu mati er það flottast við hann Ara Kristins að hann leyfir sér að vinna verk sem börn geta brugðist við og velt fyrir sé á alla kanta. Húrra fyrir honum.

Á föstudaginn, þegar ég kom út frá vinnu, var af einhverjum ástæðum sprungið á bílnum mínum. Ég losaði um dekkið en lenti í vandræðum þegar ég ætlaði að losa tjakkinn úr skottinu. Hann var boltaður niður og ekkert af þeim verkfærum sem fylgdu dugðu til.

Af því að ég er á bílaleigubíl hringdi ég eftir aðstoð. Um hálftíma seinna mætir ungur og hress maður en ekki tekst honum betur en mér að losa tjakkinn. Hann var þó með tjakk í sínum bíl og bisast við að nota hann. Þá kemur Baltasar og hélt varla vatni í hláturskasti yfir því að femínistinn hefði leitað á náðir karlmanns.
Halló! "hvernig á ég öðruvísi að hitta karlmenn sem eru ekki giftir og það aðal kvenskörungum íslandssögunnar?" Kona spyr sig eins og henni er þrælað út við tölvuna, einangruð í kjallaranum.

Ég meiddi mig á puttanum við dekkjavesenið og var orðin allt of sein.

Birta var í öruggu skjóli vinkonu sinnar hennar Láru. Elísabet vinkona mín og nafna sótti Loga á Drafnarborg.

Þá komumst við að því að Logi telur Ellu Stínu ömmu sína. Hljóp fagnandi í fangið á henni og gólaði "amma".

Þetta er mikill gæðastimpill. Logi telur sig nú þegar eiga 4 afa og 4 ömmur. Helmingurinn er það í alvörunni, hinn helmingurinn hefur unnið sér inn titilinn með því að vera alvöru fólk.

Elísabet og nýja ömmubarnið fóru yfir á Drafnarstíginn til Jóhönnu ömmu - og nei hún er bara alvöru fólk. Er í raun amma hans Mána.

Ella Stína er búin að vera á Írlandi og kom færandi gull skó og toblerone og bók. Mér var reyndar send bókin í pósti en hef enn ekki náð að sækja hana. Pósthúsið mitt er nefnilega í öðru bæjarfélagi.

Búandi í vesturbænum var eitthvað gáfnaljósið sem ákvað að pósthúsið okkar ætti best heima á Seltjarnarnesi.

Bókin sem Elísabet lét mig fá var Heilræði lásasmiðsins. Bókin hennar.

Þetta er svona alvöru bók, innbundin með yndislegri bókakápu sem skartar gyðjunni Bóbó og upphleyptum stöfum.

Hún er góð á náttborðinu.

Ég ætla að nýta frídaginn minn og lesa hana.

Skilst að ég sé í henni, eða allavega leðurstígvélin mín.

Kristrún Heiða skrifaði flottan dóm um bókina í Fréttablaðinu nú fyrir helgi.

Við drukkum te á Drafnarstígnum, Jóhanna var á fundi og er á leið til Líbanon í dag.

Elísabet sagði okkur sögur frá Írlandi og sýndi okkur flottustu stígvéli sem búin hafa verið til. Með prinsessu undir bleikum hælnum. Sannkölluð töfrastígvéli.

Þá uppgötva ég að ég var ekki með húslyklana mína... Hringi í Mána og hann kemur með Athenu, Rottweilerinn, og aukalyklana. Í millitíðinni hringir Jaana en hún stendur köld fyrir framan Hringbrautina. Hún ætlar að passa fyrir mig meðan ég skrepp erinda í Latabæ. Henni er líka stefnt á Drafnarstíginn. Að lokum er þarna orðið dágott partý en húsráðandi enn fjarri góðu gamni.

Þetta endaði allt vel.

Daginn eftir er væg gubbupest að heimsækja okkur þannig að ætluðum piparkökubakstri með vinkonum er frestað. Ég er eitthvað hálfslöpp og er að rabba við Kötu vinkonu í símann þegar Logi rekur upp skaðræðisöskur. Ég þýt fram og sé barnið í keng fyrir framan spegilinn með eyrnapinnaboxið í hendinni og blóðugan eyrnapinna á gólfinu.

Beið ekki boðanna og þaut útí bíl með hann og Birtu, beinustu leið uppá slysavarðastofu. Þar fékk ég að vita að hann væri búinn að gera gat á hljóðhimnuna og það blæddi úr eyranu.

Það er á svona stundum sem ég finn að ég er hlynnt einkalæknum og fegin að ég er ekki Britney Spears ...

Ég var send heim með barnið þar sem ekki væri unnt fyrir háls- nef- og eyrnalækni að taka á móti honum strax. Við fengjum ég ekki tíma fyrr en á mánudagsmorguninn. Tók manísku mömmuna á þetta og held að allt reddist. Drengurinn er nógu hress; ekki á honum að sjá.

Hann er samt með gat í eyra. Það grær vonandi hratt, þarf bara að fylgjast vel með.

Ég hef fengið veður af því að á milli bara bæjarins þvælist farandskáld og segi sögur af mér. Allsvæsnar.

Þó það sé falleg tilhugsun, að einhver finnist kona efniviður í sögur og flytji opinberlega, skilst mér að þessar sögur hans séu einhæfar og illkvitnar.

Ég ætla að taka viljan fyrir verkið og býð honum að lesa bara upphátt af blogginu mínu í staðinn. Ég held það kæmi betur út fyrir okkur bæði.

Hér er svo jólasveinamynd til að undirstrika að það er tími til kominn að panika fyrir jól.

2097729390_72ce94041e