laugardagur, mars 08, 2008

Ekki stela 7000 kall...

... en endilega lemdu kerlingu.

Dómarinn sem dæmdi í máli vinkonu minnar er Guðjón St. Marteinsson. Hann dæmdi ofbeldismanninn hennar Julie Fischer, sem hefur í gær og í dag sagt sögu sína á stöð 2, í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til að borga miskabætur uppá 150.000kr. Árið 2005 dæmdi sami dómari, Guðjón St. Marteinsson, mann sem dómurinn viðurkenndi að væri ekki heill á geðsmunum, til 45 daga fangelsis - fyrir að stela 7000 kalli!!!

Hvar er Guðjón St. Marteinsson staddur í dagatalinu? Ég spyr eins og Jónas - miðöldum? Jónas skrifaði sinn pistil 2005. Ekkert hefur gerst síðustu 2 ár. Dómar í ofbeldismálum eru jafn fáránlegir og lögregla og skasóknarar leggja sig enn í líma við að ná höndunum yfir lítilmagnana. Allt þetta þrátt fyrir að 2006 var samþykkt heimild í lögum til refsihækkunar vegna heimilisofbeldis. Er þetta í lagi?

Guðjón St. Marteinsson hefur enn ekki séð sér fært að senda Julie dóminn, hún fékk bara símhringingu frá lögfræðingnum sínum. Eins hefur dómurinn ekki verið birtur á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur.


Af bloggi Jónasar http://www.jonas.is/blogg

02.09.2005
45 dagar fyrir 7000 kr
Dómvenja í héraðsdómi er í mörgum tilvikum fráleit. Einkum skera í augu harðir dómar fyrir hnupl og vægir dómar fyrir ofbeldi. Nú síðast var maður, sem dómarinn viðurkenndi, að væri ekki heill á geðsmunum, dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir að stela 7000 krónum. Er Guðjón St. Marteinsson dómari sjálfur staddur í miðöldum? Er enginn dómstjóri eða annað yfirvald í dómskerfinu, sem getur hrist upp í forstokkuðu dómaraliði? Þeir tímar eru liðnir fyrir nokkrum öldum, að hnupl var talinn verri glæpur en ofbeldi. Nú á tímum eiga 7000 króna hnuplarar heima í meðferð, ekki á Litla-Hraun

---------------------

Að lokum þetta:


fimmtudagur, mars 06, 2008

Stolt og reið!

Ég er afar stolt af henni vinkonu minni. Það var viðtal við Julie Ficher í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ég vona að hún verði öðrum konum fyrirmynd og að þær sem verða fyrir ofbeldi - sama af hvaða toga - láti í sér heyra.

Ég veit að margar treysta sér ekki í það, því fyrir liggja oft hótanir ofbeldismannsins. Ég held við þurfum að fara að passa betur uppá hvort annað. Löggjafinn og dómsvaldið eru ekki að sjá til þess að við fáum lifað við það öryggi sem við eigum skilið. Af einhverjum ástæðum vilja þeir sem flesta ofbeldismenn útá götu. Konur, Karlar og Börn, þurfa að þola það að þessi lýður fær skell á handarbakið og gengur síðan glottandi frá hverjum glæpnum á eftir öðrum. Löghlýðnir borgara, greiðandi okkar skatta og opinber gjöld - eigum við þetta virkilega skilið?

Mér finnst það hneisa að ekki er búið að birta dóminn hennar Julie. Hef heyrt kjaftasögur um að viðkomandi dómari birti ekki dómana sína - til að vernda málsaðila.... í þessu tilfelli er hann allavega ekki að vernda hana Julie. Hún er afar opinská með það sem kom fyrir hana.

Sjálf hélt ég að dómurum bæri að birta dómana. En kannski er viðkomandi dómari bara að hreinskrifa ...

Annar dómur féll í dag. Þar var ungur maður dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hnefahögg sem olli tannbroti. Og tæplega 150.000 kr. miskabætur voru dæmdar brotaþola, sem byt the way er karlmaður og hafði stuttu fyrir hnefahöggið gripið í klof vinkonu þess sem sló. - Áhugavert.

Undirstrika að ég er á móti öllu ofbeldi, en afleiðingar þess að kýla tönn úr karlmanni eru áhugaverðar í ljósi þeirra dóma sem eru að falla vegna ofbeldis á konum.

Ekki einn dómari hefur nýtt sér þyngingarákvæðið sem var lögleitt árið 2006; „Hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda, og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.“

Ekki einn dómari!! Þeir eru samt glaðir að týna allt til sem má nota til refsilækkunar; reitti hann til reiði, hún byrjaði... - nema þegar ráðist hefur verið á menn vegna þess að þeir réðust gegn kynfrelsi kvenna. Dómurinn í dag bendir til þess og dómurinn sem ég linkaði á í athugasemdakerfinu á síðasta póst. Þar er það ofbeldismaður Julie sem var kýldur niður eftir að hafa gerst illa ágengur við konu honum alls ókunnuga.

Það er líka áhugavert að skoða þessa tvo nefnda dóma, þar sem karlmenn verða fyrir árás, því í þeim fer lítið fyrir því að ákærði eigi alltaf að njóta vafans. Eitthvað sem er hamrað á þegar menn eru ákærðir fyrir nauðganir eða sifjaspell.

Skilaboð löggjafans til karlmanna eru skýr; það má misþyrma konum en vogið ykkur ekki að leika einhverja riddara og vaða til að verja þær þegar aðrir karlmenn brjóta gegn þeim. Þá er okkur að mæta. Amen.

Undirstrika að ég tel réttarkerfið ekki sinna hagsmunum mínum og annarra kvenna. Það er mikilvægt að við krefjumst aðgerða núna, að þingmenn og ráðherrar beiti sér í þessu máli í dag. Ég ætla ekki að fara að gleypa við hugsanlegum kosningaloforðum rétt fyrir næstu alþingiskosningar. Tími til bóta er NÚNA! Mun dæma ykkur í næstu kosningum eftir gjörðum ykkar í dag.

Þangað til búið er að forma réttarkerfi sem sinnir hagsmunum allra þjóðfélagsþegna held ég að við ættum að setja upp okkar eigin dómstól. Jamm. Held það sé næst á dagskrá.