fimmtudagur, mars 06, 2008

Stolt og reið!

Ég er afar stolt af henni vinkonu minni. Það var viðtal við Julie Ficher í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ég vona að hún verði öðrum konum fyrirmynd og að þær sem verða fyrir ofbeldi - sama af hvaða toga - láti í sér heyra.

Ég veit að margar treysta sér ekki í það, því fyrir liggja oft hótanir ofbeldismannsins. Ég held við þurfum að fara að passa betur uppá hvort annað. Löggjafinn og dómsvaldið eru ekki að sjá til þess að við fáum lifað við það öryggi sem við eigum skilið. Af einhverjum ástæðum vilja þeir sem flesta ofbeldismenn útá götu. Konur, Karlar og Börn, þurfa að þola það að þessi lýður fær skell á handarbakið og gengur síðan glottandi frá hverjum glæpnum á eftir öðrum. Löghlýðnir borgara, greiðandi okkar skatta og opinber gjöld - eigum við þetta virkilega skilið?

Mér finnst það hneisa að ekki er búið að birta dóminn hennar Julie. Hef heyrt kjaftasögur um að viðkomandi dómari birti ekki dómana sína - til að vernda málsaðila.... í þessu tilfelli er hann allavega ekki að vernda hana Julie. Hún er afar opinská með það sem kom fyrir hana.

Sjálf hélt ég að dómurum bæri að birta dómana. En kannski er viðkomandi dómari bara að hreinskrifa ...

Annar dómur féll í dag. Þar var ungur maður dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hnefahögg sem olli tannbroti. Og tæplega 150.000 kr. miskabætur voru dæmdar brotaþola, sem byt the way er karlmaður og hafði stuttu fyrir hnefahöggið gripið í klof vinkonu þess sem sló. - Áhugavert.

Undirstrika að ég er á móti öllu ofbeldi, en afleiðingar þess að kýla tönn úr karlmanni eru áhugaverðar í ljósi þeirra dóma sem eru að falla vegna ofbeldis á konum.

Ekki einn dómari hefur nýtt sér þyngingarákvæðið sem var lögleitt árið 2006; „Hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda, og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.“

Ekki einn dómari!! Þeir eru samt glaðir að týna allt til sem má nota til refsilækkunar; reitti hann til reiði, hún byrjaði... - nema þegar ráðist hefur verið á menn vegna þess að þeir réðust gegn kynfrelsi kvenna. Dómurinn í dag bendir til þess og dómurinn sem ég linkaði á í athugasemdakerfinu á síðasta póst. Þar er það ofbeldismaður Julie sem var kýldur niður eftir að hafa gerst illa ágengur við konu honum alls ókunnuga.

Það er líka áhugavert að skoða þessa tvo nefnda dóma, þar sem karlmenn verða fyrir árás, því í þeim fer lítið fyrir því að ákærði eigi alltaf að njóta vafans. Eitthvað sem er hamrað á þegar menn eru ákærðir fyrir nauðganir eða sifjaspell.

Skilaboð löggjafans til karlmanna eru skýr; það má misþyrma konum en vogið ykkur ekki að leika einhverja riddara og vaða til að verja þær þegar aðrir karlmenn brjóta gegn þeim. Þá er okkur að mæta. Amen.

Undirstrika að ég tel réttarkerfið ekki sinna hagsmunum mínum og annarra kvenna. Það er mikilvægt að við krefjumst aðgerða núna, að þingmenn og ráðherrar beiti sér í þessu máli í dag. Ég ætla ekki að fara að gleypa við hugsanlegum kosningaloforðum rétt fyrir næstu alþingiskosningar. Tími til bóta er NÚNA! Mun dæma ykkur í næstu kosningum eftir gjörðum ykkar í dag.

Þangað til búið er að forma réttarkerfi sem sinnir hagsmunum allra þjóðfélagsþegna held ég að við ættum að setja upp okkar eigin dómstól. Jamm. Held það sé næst á dagskrá.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær færsla Beta!! Fæ að linka á þig frá mér

Hringbrautin sagði...

Takk og auðvitað ;)

Nafnlaus sagði...

Ég finn fyrir skömm og vanmatt.

Nafnlaus sagði...

Þú ert best.

elísabet jök.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að benda á þetta!

kv.martasmarta

Nafnlaus sagði...

Mjög góð færsla og því miður allt of sönn :(
Svoooo sammála þér með að það er miklu meira en nóg komið og það þarf að breyta þessu NÚNA.