föstudagur, janúar 26, 2007

Ævintýrið um hveitið



Logi slapp laus í hveitið.
Þá kom prinsessa og bjargaði honum.

Þannig fór með sögu þá.
Posted by Picasa

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Er pláss fyrir þrjú "b" í fótbolta?

Þrír hafa sótt um að gegna formannsstöðu inna KSÍ. Halla Gunnarsdóttir, Jafet Ólafsson og Geir Þorsteinsson. Það er hressandi að sjá þann mikla stuðning sem Halla hefur til embættisins, allavega meðal almennings.

Það er ekki eins hressandi að skoða spjallsíður sem tengjast fótbolta og fótboltafélögum. Það er augljóst af lestri þeirra að innan knattspyrnu er sauðurinn misjafn og því miður ótrúlega kvenfyrirlitningu að finna inná milli innleggja.

Á gras.is (http://www.gras.is/content.aspx?n=18391&c=1 sjá álit neðst á síðunni) er Höllu helst fundið það til áráttu að vera kona og þar að finna ábendingar um að konur eigi ekki að skipta sér af fótbolta, þær eigi að strippa og vera í Playboy.

Á spjallsíðu Vals (http://www.valur.is/spjall/skoda.asp?d=5&f=1&b=2904 ) er einhver sem lýsir því yfir að hann myndi frekar kjósa simpansa en Höllu. Ég velti því fyrir mér hvort viðkomanda sé sama af hvoru kyni sá simpansi sé!?

Á spjallsíðu KR ( http://www.krreykjavik.is/?kr=umraedan&yid=7843 ) fara þeir á límingunum og tala um femínistann og að baráttumál Höllu eigi ekki heima innan félagsins – hvaða baráttumál Höllu ætli eigi ekki heima innan KSÍ að þeirra mati? Jafnréttið?

Umræðan á KR-vefnum litast af grein eftir Jón Bjarna Kristjánsson á sama vef ( http://www.krreykjavik.is/?kr=frettir&vID=462 ). Þar hamrar hann á að framboð Höllu sé kvennapólitík og eigi ekki heima í KSÍ.

Hvernig er hægt að skilgreina kröfur um betri aðstöðu og stuðning við fótbolta kvenna og barna sem kvennapólitík nema viðkomandi líti á fótbolta sem karlapólitík?

Ætla má að Jón Bjarni telji konur frávik frá norminu sem væri þá karlmaður í fótbolta, það hlýtur að vera KSÍ áhyggjuefni ef það viðhorf ríkir enn meðal aðildarfélaga þeirra. Slíkt viðhorf getur ekki annað en heft framgang knattspyrnu og sett íþróttinni of miklar skorður. Það er augljóst að bæði konur og karlar eru komin með nóg af þessari einstefnu.

Með það í huga hvaðan aðaltekjur knattspyrnufélaga koma; Reykjavíkurborg eða sveitarfélögum, lottótekjum, getraunum og einkaaðilum eins og t.d. Landsbankanum sem sækir arð sinn ekki síður til kvenna en karla, hvernig er þá hægt að réttlæta kynjamisrétti innan fótboltans með því að karlarnir séu að koma með allan peninginn?

Það er að sjálfsögðu vandamál að ekki skuli vera sami áhugi á að senda út leiki kvenna og karla og þannig minnka tekjumöguleikar kvenna talsvert - þetta er því augljóst baráttumál en á ekki að afgreiða með því að kvennabolti sé leiðinlegur og lélegur.

En er að undra þetta viðhorf sé að finna innan knattspyrnunnar?

Það er ekki langt síðan gras.is sá ekki ástæðu til að birta aðrar myndir af konum í knattspyrnu en hálfnöktum leikmönnum Brasilíska kvennalandsliðsins og Geiri klámsjúkdómur átti besta auglýsingaplássið hjá þeim.

"B’in þrjú" er þekktur frasi innan sjónvarpsstöðva sem sérhæfa sig í útsendingum á knattspyrnuleikjum; Bolti, bjór og brjóst. Það er engin tilviljun að Sýn sýni fótbolta og klám - það er skipulögð markaðssetning.

Það er ekki langt síðan KR hélt uppá sitt herrakvöld í samstarfi við Geira klámsjúkdóm, sem bauð uppá berbrjósta stúlkur fyrir drengilega herramennina.Slík herrakvöld hafa verið haldin meðal annarra félagsliða í knattspyrnu og eitthvað félag jafnvel skreytt treyjur sínar með auglýsingum frá Goldfinger – klámsjúkdómar dreifa sér hratt.

Á sama tíma hafnar KSÍ að fordæma vændi og mansal í tengslum við heimsmeistarakeppnina í fótbolta í Þýskalandi.

Eru þau neikvæðu ómálefnalegu skot sem Halla fær á sig á þessum síðum skiljanleg í ljósi ofangreinds? Eru þau réttlætanleg?

Er ofangreint til þess fallið að efla knattspyrnuþátttöku kvenna?

Er ofangreint til þess fallið að eyða fordómum gegn konum í knattspyrnu?

Íslenska kvennalandsliðið hefur staðið sig með eindæmum vel og eru í 19. sæti yfir þær bestu í heiminum. Hugsið ykkur bara hvar þær stæðu með dyggum stuðning og fordómalausum og handfylli af virðingu.


þriðjudagur, janúar 23, 2007

Tom Cruise forði mér frá því að ýkja...

... En sögur af megastjörnum eru farnar meira og meira að minna mig á goðsagnir. Við fáum að fylgjast með risi og falli þeirra, átökum og ástum, gjöfum og fórnum. Þær jafnvel taka til sín mannabörn og ala upp sem sín eigin líkt og sum goð hafa gert. Þau keppast innbyrðis um hver eru fallegust, sterkust og réttvísust. Þær eldast hægar en almenningur og sumar taldar eilífar; Elvis has not left the planet... Stjörnurnar eru okkar leiðarvísir í lífinu, kenna okkur rétt og rangt, hvernig ber að haga sér og líta út. Til þeirra er hægt að leita með hvaða vandamál sem er því þær vita og kunna allt. Ekkert okkar vill styggja stjörnu nema þá að hafa á bak við sig stærri stjörnu.

Zeus gæti verið að birtast okkur nú sem Michael Douglas og Catherine Zeta-Jones væri þá Hera.

Angelina væri Tethys gift Oceanus sem þá væri Brad saman öldu þau upp hundruðir hálfguða.

Bush er tvífari Epimetheus etc. etc.

Og Tom Cruise er jú bara Tom Cruise ... að eilífu. Amen

Tom Cruise er „Kristur“ Vísindakirkjunnar

sunnudagur, janúar 21, 2007

Gleðifréttir

Það er gott að hafa blöðin og aðra fréttamiðla þegar maður vaknar í sínu svitakófi eftir að daglegar áhyggjur hafa sótt að manni í draumi.

Í gegnum fjölmiðla fæ ég að kynnast fólkinu sem kann að vinna og rækta sinn garð. Það er fólkið sem leggur milljarð inná reikninga, fær Elton John til að syngja í afmælinu sínu og er svo duglegt að meika það að það talar í tvo síma í einu.

Þetta er vissulega hvetjandi.

Fær mann til að skilja hverslags aumingi maður sjálfur er að geta varla komið yfir sig þaki með 70% láni. Að maður skuli voga sér að væla yfir því að restina verði maður að fjármagna meira og minna með yfirdráttarheimildum á 17-22.5% vöxtum og vanskilum á virðisaukaskattsgreiðslum með margföldum okurofurvöxtum. Fyrr má nú vera - ætlast maður til að fá allt uppí hendurnar!?

Fær mann til að roðna yfir því að skilja ekki frelsið sem verkalýðsfélögin gáfu okkur með því að samþykkja að við færum aftur á eyrina sem verktakar án réttinda. Að maður skuli ekki skammast sín fyrir að kunna ekki að meta fríið sem fæst þegar byrjun vinnu við bókað verkefni tefst. Kannski er þetta bara kjellingin í manni sem kann ekki að smyrja á reikninga og fá þá borgaða á réttum tíma.

Er það furða að sá aumingi sem maður er skuli kikna undan 20-40 þúsunda króna reikningi á barn til að þau fái stundað íþróttir og menningu utan skóla? Snobbhani er maður. Væri betra að kenna þeim að taka því þegjandi.

Þessi svitakóf næturinnar eru greinileg merki um þá öfund sem í mér býr. Að ég skuli kalla mig Íslending. Mér væri nær að fjárfesta í öðrum síma og tala í hann líka.

En það er óumdeild huggun að vita að þarna úti eru fréttamenn og miðlar sem eru tilbúnir að varpa ljóma á þá sem meira mega sín, en eru ekki að velta sér uppúr afleiðingum neyslugleðinnar á aumingja eins og mig.