miðvikudagur, janúar 24, 2007

Er pláss fyrir þrjú "b" í fótbolta?

Þrír hafa sótt um að gegna formannsstöðu inna KSÍ. Halla Gunnarsdóttir, Jafet Ólafsson og Geir Þorsteinsson. Það er hressandi að sjá þann mikla stuðning sem Halla hefur til embættisins, allavega meðal almennings.

Það er ekki eins hressandi að skoða spjallsíður sem tengjast fótbolta og fótboltafélögum. Það er augljóst af lestri þeirra að innan knattspyrnu er sauðurinn misjafn og því miður ótrúlega kvenfyrirlitningu að finna inná milli innleggja.

Á gras.is (http://www.gras.is/content.aspx?n=18391&c=1 sjá álit neðst á síðunni) er Höllu helst fundið það til áráttu að vera kona og þar að finna ábendingar um að konur eigi ekki að skipta sér af fótbolta, þær eigi að strippa og vera í Playboy.

Á spjallsíðu Vals (http://www.valur.is/spjall/skoda.asp?d=5&f=1&b=2904 ) er einhver sem lýsir því yfir að hann myndi frekar kjósa simpansa en Höllu. Ég velti því fyrir mér hvort viðkomanda sé sama af hvoru kyni sá simpansi sé!?

Á spjallsíðu KR ( http://www.krreykjavik.is/?kr=umraedan&yid=7843 ) fara þeir á límingunum og tala um femínistann og að baráttumál Höllu eigi ekki heima innan félagsins – hvaða baráttumál Höllu ætli eigi ekki heima innan KSÍ að þeirra mati? Jafnréttið?

Umræðan á KR-vefnum litast af grein eftir Jón Bjarna Kristjánsson á sama vef ( http://www.krreykjavik.is/?kr=frettir&vID=462 ). Þar hamrar hann á að framboð Höllu sé kvennapólitík og eigi ekki heima í KSÍ.

Hvernig er hægt að skilgreina kröfur um betri aðstöðu og stuðning við fótbolta kvenna og barna sem kvennapólitík nema viðkomandi líti á fótbolta sem karlapólitík?

Ætla má að Jón Bjarni telji konur frávik frá norminu sem væri þá karlmaður í fótbolta, það hlýtur að vera KSÍ áhyggjuefni ef það viðhorf ríkir enn meðal aðildarfélaga þeirra. Slíkt viðhorf getur ekki annað en heft framgang knattspyrnu og sett íþróttinni of miklar skorður. Það er augljóst að bæði konur og karlar eru komin með nóg af þessari einstefnu.

Með það í huga hvaðan aðaltekjur knattspyrnufélaga koma; Reykjavíkurborg eða sveitarfélögum, lottótekjum, getraunum og einkaaðilum eins og t.d. Landsbankanum sem sækir arð sinn ekki síður til kvenna en karla, hvernig er þá hægt að réttlæta kynjamisrétti innan fótboltans með því að karlarnir séu að koma með allan peninginn?

Það er að sjálfsögðu vandamál að ekki skuli vera sami áhugi á að senda út leiki kvenna og karla og þannig minnka tekjumöguleikar kvenna talsvert - þetta er því augljóst baráttumál en á ekki að afgreiða með því að kvennabolti sé leiðinlegur og lélegur.

En er að undra þetta viðhorf sé að finna innan knattspyrnunnar?

Það er ekki langt síðan gras.is sá ekki ástæðu til að birta aðrar myndir af konum í knattspyrnu en hálfnöktum leikmönnum Brasilíska kvennalandsliðsins og Geiri klámsjúkdómur átti besta auglýsingaplássið hjá þeim.

"B’in þrjú" er þekktur frasi innan sjónvarpsstöðva sem sérhæfa sig í útsendingum á knattspyrnuleikjum; Bolti, bjór og brjóst. Það er engin tilviljun að Sýn sýni fótbolta og klám - það er skipulögð markaðssetning.

Það er ekki langt síðan KR hélt uppá sitt herrakvöld í samstarfi við Geira klámsjúkdóm, sem bauð uppá berbrjósta stúlkur fyrir drengilega herramennina.Slík herrakvöld hafa verið haldin meðal annarra félagsliða í knattspyrnu og eitthvað félag jafnvel skreytt treyjur sínar með auglýsingum frá Goldfinger – klámsjúkdómar dreifa sér hratt.

Á sama tíma hafnar KSÍ að fordæma vændi og mansal í tengslum við heimsmeistarakeppnina í fótbolta í Þýskalandi.

Eru þau neikvæðu ómálefnalegu skot sem Halla fær á sig á þessum síðum skiljanleg í ljósi ofangreinds? Eru þau réttlætanleg?

Er ofangreint til þess fallið að efla knattspyrnuþátttöku kvenna?

Er ofangreint til þess fallið að eyða fordómum gegn konum í knattspyrnu?

Íslenska kvennalandsliðið hefur staðið sig með eindæmum vel og eru í 19. sæti yfir þær bestu í heiminum. Hugsið ykkur bara hvar þær stæðu með dyggum stuðning og fordómalausum og handfylli af virðingu.


Engin ummæli: