sunnudagur, janúar 21, 2007

Gleðifréttir

Það er gott að hafa blöðin og aðra fréttamiðla þegar maður vaknar í sínu svitakófi eftir að daglegar áhyggjur hafa sótt að manni í draumi.

Í gegnum fjölmiðla fæ ég að kynnast fólkinu sem kann að vinna og rækta sinn garð. Það er fólkið sem leggur milljarð inná reikninga, fær Elton John til að syngja í afmælinu sínu og er svo duglegt að meika það að það talar í tvo síma í einu.

Þetta er vissulega hvetjandi.

Fær mann til að skilja hverslags aumingi maður sjálfur er að geta varla komið yfir sig þaki með 70% láni. Að maður skuli voga sér að væla yfir því að restina verði maður að fjármagna meira og minna með yfirdráttarheimildum á 17-22.5% vöxtum og vanskilum á virðisaukaskattsgreiðslum með margföldum okurofurvöxtum. Fyrr má nú vera - ætlast maður til að fá allt uppí hendurnar!?

Fær mann til að roðna yfir því að skilja ekki frelsið sem verkalýðsfélögin gáfu okkur með því að samþykkja að við færum aftur á eyrina sem verktakar án réttinda. Að maður skuli ekki skammast sín fyrir að kunna ekki að meta fríið sem fæst þegar byrjun vinnu við bókað verkefni tefst. Kannski er þetta bara kjellingin í manni sem kann ekki að smyrja á reikninga og fá þá borgaða á réttum tíma.

Er það furða að sá aumingi sem maður er skuli kikna undan 20-40 þúsunda króna reikningi á barn til að þau fái stundað íþróttir og menningu utan skóla? Snobbhani er maður. Væri betra að kenna þeim að taka því þegjandi.

Þessi svitakóf næturinnar eru greinileg merki um þá öfund sem í mér býr. Að ég skuli kalla mig Íslending. Mér væri nær að fjárfesta í öðrum síma og tala í hann líka.

En það er óumdeild huggun að vita að þarna úti eru fréttamenn og miðlar sem eru tilbúnir að varpa ljóma á þá sem meira mega sín, en eru ekki að velta sér uppúr afleiðingum neyslugleðinnar á aumingja eins og mig.

Engin ummæli: