fimmtudagur, apríl 12, 2007

Jing og Jang

RIKK býður einatt upp á frábæra fyrirlestra og málstofur. Nú í hádeginu var Einar Mar Þórðarson fengi til að ræða kosningarhegðun kynjanna.

Einar byrjaði á því að útskýra að öll erlend fræðirit sem hann skoðaði gengu út frá því að kosningahegðun kvenna væri frávik frá norminu (lesist kosningahegðun karlmanna). Rosalega ótrúleg tilviljun... við höfum aldrei kynnst því fyrr. En þess vegna, en þó ekki síður vegna þess að kosningahegðun kvenna væri einfaldlega áhugaverðari, væri hann kominn til að tala um kosningahegðun kvenna.

Íslenskar kosningarannsóknir sýna að talsverður munur er á kosningahegðun kynjanna og talsvert mikið meiri munur en rannsóknir sýna fram á í öðrum löndum. Þessi munur (gender gap) hefur verið að aukast undanfarna áratugi; konur kjósa meira og meira til vinstri en karlar kjósa til hægri.

Einar Mar sagði skýringarnar á þessu vera helst þær að karlar sýndu meiri flokkshollustu en konur og að konum hugnuðust betur stefnumál vinstri flokkanna, sérstaklega í umhverfismálum og jafnréttismálum. Einar Mar tókst að eyða þeirri alhæfingu að konur kysu konur heldur gat hann sýnt fram á að fókus vinstri flokkana hugnaðist konum einfaldlega betur. Þannig getur enginn flokkur treyst á fylgi kvenna með því einu að flagga konum - fókus á málefni sem skipta konur máli verður að vera til staðar.

Ef marka má skoðanakannanir nú stefnir í miklar breytingar á þingstyrk flokka eftir kosningarnar í vor og bendir margt til þess að því sé að þakka kosningahegðun kvenna. Gender gapið hefur aldrei verið meira og langt um stærra en í öðrum löndum í kringum okkur.

Þrátt fyrir þennan mun er ljóst að kosningahegðun karla hefur líka breyst og miklu algengara nú að þeir eins og konurnar flakki á milli flokka eftir því hvar fókus flokkanna liggur.

Í umræðum sem fylgdu erindi Einars kom fram sú kenning að konur kysu eftir því hvernig staða efnahagsmála væru á hverjum tíma. Ef rétt mætti þakka konum fyrir að stuðla að auknum stöðugleika. Þær pössuðu upp á jing og jangið.

Og nú telja konur komið nóg af áherslum hægri vængsins og þurfi að skapa betra jafnvægi með því að kjósa til valda vinstri flokkana. Frábært. Eftir 10 ár eða 12 á ég kannski eftir að heyja baráttu fyrir sjálfstæðisflokkinn.

Engin ummæli: