mánudagur, september 17, 2007

Starring Cate Blanchett

Úff púff. Það er aldeilis búin að vera törn síðustu vikur. Vinnan og lífið.

En þegar kona fær símtal eins og í fyrrakvöld, frá frábærum konum stöddum á Grænlandi, verður allt þess virði. Þetta voru Stígamótakonur sem hringdu eftir frumsýningu á kvikmynd um hringferð sína um Ísland í sumar. Þetta er ekki heimildarmynd í hefðbundnum skilning, meira svona gleðimynd. Og á norrænni ráðstefnu á Grænlandi vakti hún líka þessa miklu lukku. Ég er svo hamingjusöm fyrir hönd þessa hóps, sem hefur unnið svo flott og mikið starf á hjartatauginni einni saman, því ekki vaða þær í fé né úrræðum. Bravó. Það var hún Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir sem leikstýrði myndinni. Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert var að vinna með henni úr þessu efni frá ferðinni. Svo mikil gleði. Ég held ég sé aðeins betri manneskja eftir þetta.

Fyrir utan vinnu hefur lífið verið.... hvað get ég sagt... fjörugt!?

Eldhúshillurnar hrundu og með þeim fór í gólfið gullbryddaða stellið frá Ömmu Elísabet, erfðargossið mitt. Öll vínglösin, föt og skálar. Og eldhúsborðið mitt og rándýr eldhússtóll. Allt semsagt brotið og bramlað. VÍS gekk í málið og áður en vikan var liðin var allt bætt og búið að gera við borðið. Algjörlega til fyrirmyndar og á skjön við margar sögur sem kona heyrir. Topp þjónusta.

Hef reglulega átt í súrrealískum samræðum við Ogvodafone. Ekki súrrealískum ala auglýsingarnar þeirra heldur súrrealískum ala "ég er að kaupa af ykkur vöru en er ekki að fá hana en þarf samt að borga" "já því miður þannig er það bara" samræðum. Ég tilheyri semsagt þessum 5%. Svo enduðu þeir á því að kenna Securitas um tengingarleysi mitt og töldu sig þannig fría frá ábyrgð. Tilheyra samt allir Mömmu sem seldi mér pakkann á þeim forsendum að það væri svo fínt að hafa þetta allt undir einum aðila. En það þýðir ekkert að hringja í Mömmu af því að þar taka þeir ekki á móti veseni, þar er bara verið að selja þjónustu. Allir tilheyra 365 miðlum, svona eins og Saga Film sem óvart framleiddi auglýsingu fyrir símann undir merkjum OgVodafone. Súrrealískt. Jamm.

Tókst með naumindum að stoppa nauðungarsölu á íbúðinni minni. lokadÁkvað að lesa þetta leiðindabréf frá Tollstjóra, núna á fimmtudagsmorguninn, rámaði eitthvað í að dagsetningin hefði tilheyrt deginum. Jújú, uppboð á íbúðinni klukkan 10.

Þetta var barasta eins og í bíómynd hvernig ég dreif börnin út í skólana og hentist niður til Tollstjóra með hnefann á lofti. Leit örugglega út eins og hún Trinity í Matrix, í svartri síðri regnkápu frá 66gráðumnorður. Þeim hjá Tollstjóra fannst ég ekki hafa staðið mig við innheimtustörf fyrir þeirra hönd. Launalaust starf að vísu, en kröfurnar endalausar. Ætluðu að kenna mér lexíu með einhverju sem má líka við selfirskan þvaglegg. Auðvitað var þetta ekki alveg svo slæmt að komið væri að hamarshöggi, þó ekki hafi verið hægt að skilja bréfið öðruvísi. Mér þætti við hæfi að þeir hjá tollstjóra lærðu að senda emil, ég les emilana mína. En opna varla bréf frá opinberum aðilum. Aldrei vitað einhverja gæfu falda í pósti frá þeim.

bandits2

Keypti mér nýja uppþvottavél því sú gamla dó. Leitaði lengi að vél sem er ekki með ritgerð og ljósashowi framan á sér. Fann eina. Hún á að vera ein sú hljóðlátasta á markaðnum. Einmitt. Það líkist helst tónleikum rokksveitar þegar hún er sett í gang. En með tímanum venst maður þessu og nú finnst mér þetta vinalegt hljóð. Upplifi að ég sé að taka þátt í uppþvottinum þegar ég heyri vélina nuddast í hverri skál.

Svo vaknaði ég upp við það á föstudagsmorguninn að Logi tróð hægri löpp sinni uppí andlitið á mér og vildi að ég kyssti á bágtið. Mér sýndist hann bólginn og að hann væri með aðskotahlut, jafnvel glerbrot, uppí löppinni.

Í stað þess að fara með hann í leikskólann fórum við uppá slysavarðstofu. Þar eyddum við hátt í tveim tímum og niðurstaðan var sú að drengurinn er með vörtu á ilinni. Mikið er ég fegin að hafa ekki hringt á sjúkrabíl!

houseEn þarna hitti ég alveg frábæran lækni, svona íslenska versjón af dr.House (og nú veit ég að Jenny þarf skyndilega á slysavarðstofuna ), hann sagði mér að ekki brenna burt eða eitra fyrir vörtunni. Að þetta væri vírus og engin önnur leið en láta hann ganga yfir. Ekki frekar en það teldist ráðlagt að brenna burt hlaupabólu. Reyndar tekur varta lengri tíma, tæki hana allt frá 3 mánuðum uppí 3 ár að hverfa. Ég hafði verulegar áhyggjur af því að þetta væri erfiður staður fyrir vörtu. Drengurinn haltraði jú um. En hann sagði mér að taka steininn úr skónum með því að kaupa innlegg, klippa gat fyrir vörtunni og setja í skóinn hans. Snilldarráð sem dugar okkur vel. Æ, ég hef alltaf svo gaman af því að rekast á svona lækna sem geta talað mannamál við mann og gefa tíma þó tilefnið sé ekki hættulegra en varta.

Ég er búin að vera að upplifa nýja tegund af lágvöruverðsverslun í Krónunni úti á Granda. Og það er upplifun í lagi. Ekki endilega verðið eða útlandslookið sem skapa nýja upplifun, heldur hreinar körfur og kerrur. Það sem lendir þar, veltist ekki uppúr margra ára kjötsósugrænmetisþurrkaðriklísturklessu. Alveg frábært.

Á hverjum morgni vakna ég nú upp við regnboga í eldhúsglugganum mínum. Eftir að ég setti filmuna í gluggann, til að byrgja útsýni fyrir gluggaóðafólkinu á móti mér, fellur ljósið þetta skemmtilega.1388440667_137de921e3

Það er yndislegt að drekka kaffið sitt undir regnboganum. Ekki að það hafi fært mér kistu af gulli.

Logi er farinn að vinna. Hann hertekur tölvuna mína og ef ég kvarta, hrópar hann ákveðinn: "Ég er að vinna". Hristir hausinn og biður mig frá að hverfa.

1388444951_e196cfc3e8

Ótrúlegt hvað framkvæmdagleði er í engu samhengi við getu. Logi hefur mikla framkvæmdagleði en litla getu og enga skynsemi. Algjört krútt. Systkini hans sem öll hafa meiri getu og góðan skammt af skynsemi hafa tapað allri framkvæmdagleði. En auðvitað er það mér að kenna. Mömmunni. Örugglega.

Maður berst gegn framkvæmdagleðinni meðan skynsemin er lítil. Logi fær til dæmis ekki að sjóða sitt kakó sjálfur, hann fær ekki að skera eplið, hann má ekki klippa buxurnar sínar, hann má ekki endurforrita tölvuna mína. Honum finnst örugglega hann ekkert mega gera. Og þannig ber maður úr þeim framkvæmdagleðina. Birta liggur allavega sátt í sínum baunapoka og ef beðin út með ruslið eða að sækja mjólkurpott útí búð, svarar hún án undantekningar; "ég er bara barn".

1389340456_05c4abe861

Ég má alls ekki setja inn mynd af Sindra. Er enn í frystikistunni eftir að hafa sett inn sundmyndina af honum. En kannski er ég bara í þessari frystikistu af því ég er ekki bara leiðinleg heldur líka forréttindafemínisti.

Er dálítið eyðilögð yfir því að vera talin svona leiðinleg. Er að pæla í því að fara á námskeið. Ætti að komast að þar sem mér líður ekki deginum eldri en 12 ára.

En hvað forréttindafemínisti þýðir veit ég ekki. Kannski einhver geti hjálpað mér með skilgreiningu á því fyrirbæri. But please luv me. Ég umber ekki tilhugsunina um að jafnvel sköllóttum drykkjuboltum finnist ég leiðinleg. Og mér er full alvar. Fékk hnút í magann og velti mér uppúr því í marga daga hvað ég hefði gert vitlaust. Svona gerir maður bara ekki þó kona sé ekki fegurðardrottning í blautbol. Segja konu leiðinlega.

Allavega, ef þetta endar alltsaman í bíómynd held ég að Cate Blanchett henti ágætlega í aðalhlutverkið.

Engin ummæli: