fimmtudagur, desember 20, 2007

Desemberbörnin mín!

Hann fæddist með miklu brambolti drengurinn sem varð 3 ára í gær.

Það var með ólíkindum þessi dagur.

Ég fékk slagæðablæðingu og allt í einu fylltist gatan okkar af 2x sjúkrabílum, sendiferðarbíl (sem var að koma með nýtt rúm sem var jólagjöfin til hennar Birtu) og 6 metra langri limmósínu.

Limmósínan var mætt því Sindri var að halda uppá afmælið sitt og hafði sparað pening og fengið smá hjálp til að leigja hálftíma akstur með afmælisgestum sínum.

Ég man alltaf þegar hann sagði mér að eðalvagnafyrirtækið hefði samþykkt að þau fengju gos í kristalglösin, í staðin fyrir kampavín, og þyrftu ekki að borga neitt meira fyrir það.

Enginn komst aftur á bak eða áfram í götunni og ástandið of farsakennt fyrir bíómynd.

Allavega, Logi var tekinn með bráðakeisara og allar varúðaráðstafanir settar í gang. En
hann virtist ekki hafa haft meint af látunum. Var rólegur og
glaðlyndur.

Í dag, 3 árum seinna, er hann Þórbergur Logi enn jafn glaðlyndur. En rólegur er hann ekki.

Þær eru teljandi á fingrum annarrar handar myndirnar sem ég hef náð af Loga án þess að hann sé brosandi eða skellihlæjandi.

Og óteljandi myndir á ég af honum, eiginlega í lausu lofti.

Og hér er mynd af honum að gefa mér morgunknús. Algjört yndi og ég elska hann svo ógurlega mikið.

Þau eru þrjú í viðbót sem ég elska jafn mikið og þar á meðal hann Sindri minn.

Á þessari mynd er hann 8 ára en á afmæli á morgun og verður 15 ára.


Þó ég hafi gaman og ánægju af því að sjá hann vaxa og dafna og stefna
hratt í fullorðinn einstakling er það líka tregablandið.


Desemberbörnin mín! Logi og Sindri TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!!!

sunnudagur, desember 09, 2007

Gat í eyra.

Mætt fólk fann skítablett á hvítum leðursófa í hýbýlum Britney Spears. Mér skilst að þetta sé áhyggjuefni og alls ekki fyrir viðkvæma.

Ég yrði líklegast handtekin ef sama fólk kíkti í heimsókn til mín. Hér hefur geisað bæði gubbu- og niðurgangspest og góður hluti þess sem upp, og niður, gekk lenti á kókosteppinu.

Þetta byrjaði allt þegar ég mætti til frumsýningar á heimildarmynd Stígamóta; "Ekkert stoppar Stígamót". Frábær mynd sem gefur innsýn í þann kraft sem má finna á Stígamótum. Mér hlotnaðist sá heiður að fá að klippa myndina.

Allavega. Sýningu er lokið og rétt verið að hella í kampavínsglösin þegar barnapían mín, 15 ára unglingur, hringir í öngum sínum. Logi kominn með niðurgang. He just happened to be - bleyjulaus á kókosteppinu.

Ég þaut út og náði varla að kveðja og þakka almennilega fyrir mig. (Vert að minnast á að myndin verður sýnd á opnu húsi hjá Stígamótum núna á þriðjudaginn 12.12 í tilefni af 16 daga átak gegn ofbeldi)

Hefur einhver reynt að þrífa svona drullu úr kókosteppi? Ekki reyna. Það er ekki hægt.

Síðan hafa nokkrar aðrar pestir sótt á heimilismenn. Gubbupest og "ég get víst drukkið áfengi" pest og einn tyggjóklessufaraldur. Þá gekk ég heilt kvöld með ullarteppi fast í hnakkanum.

Einhver, átta ára stúlka með fimleikaáráttu, "lenti í því" að missa húbabúba-tyggjó þegar verið var að hoppa í sófanum. Tuggin klessan lenti óséð í ullarteppinu, sem ég svo kúrði með í sófanum seinna um kvöldið.

Ég endaði með að klippa teppið úr hausnum á mér og pantaði tíma hjá Rauðhettunni honum Magna. Hann snoðaði mig. Ég er afskaplega ánægð. Fannst þetta samt ekki ódýrt klipp en skipti um skoðun í tannlæknaheimsókn í síðustu viku.


Um síðustu helgi fór ég á frábæra tónleika BB&Blake. Þetta var reyndar Vodka kynning sem ég eins og fleiri fengu boðskort á. Við fengum þó ekkert vodkað. Það var bara fyrir þá sem pöntuðu borð og borguðu 45 þúsund kall fyrir kynninguna!?

En BB&Blake voru þarna með sína fyrstu tónleika. Það var vel þess virði að leggja á sig Oliver fyrir þá uppákomu. Vera var bara flottust og Maggi eins og alltaf; pottþéttur.

Smellti mynd á símann minn.

Svo var frumsýning á Duggholufólkinu. Birta og vinkona hennar hún Lóa komu með mér. Þær skemmtu sér rosalega vel. En Birta var ekki ánægð með drauginn. "mamma næst þegar þú tekur mig með í vinnuna vil ég ekki að það sé svona draugur þar"!

En myndin er enn rædd heima hjá mér. Að mínu mati er það flottast við hann Ara Kristins að hann leyfir sér að vinna verk sem börn geta brugðist við og velt fyrir sé á alla kanta. Húrra fyrir honum.

Á föstudaginn, þegar ég kom út frá vinnu, var af einhverjum ástæðum sprungið á bílnum mínum. Ég losaði um dekkið en lenti í vandræðum þegar ég ætlaði að losa tjakkinn úr skottinu. Hann var boltaður niður og ekkert af þeim verkfærum sem fylgdu dugðu til.

Af því að ég er á bílaleigubíl hringdi ég eftir aðstoð. Um hálftíma seinna mætir ungur og hress maður en ekki tekst honum betur en mér að losa tjakkinn. Hann var þó með tjakk í sínum bíl og bisast við að nota hann. Þá kemur Baltasar og hélt varla vatni í hláturskasti yfir því að femínistinn hefði leitað á náðir karlmanns.
Halló! "hvernig á ég öðruvísi að hitta karlmenn sem eru ekki giftir og það aðal kvenskörungum íslandssögunnar?" Kona spyr sig eins og henni er þrælað út við tölvuna, einangruð í kjallaranum.

Ég meiddi mig á puttanum við dekkjavesenið og var orðin allt of sein.

Birta var í öruggu skjóli vinkonu sinnar hennar Láru. Elísabet vinkona mín og nafna sótti Loga á Drafnarborg.

Þá komumst við að því að Logi telur Ellu Stínu ömmu sína. Hljóp fagnandi í fangið á henni og gólaði "amma".

Þetta er mikill gæðastimpill. Logi telur sig nú þegar eiga 4 afa og 4 ömmur. Helmingurinn er það í alvörunni, hinn helmingurinn hefur unnið sér inn titilinn með því að vera alvöru fólk.

Elísabet og nýja ömmubarnið fóru yfir á Drafnarstíginn til Jóhönnu ömmu - og nei hún er bara alvöru fólk. Er í raun amma hans Mána.

Ella Stína er búin að vera á Írlandi og kom færandi gull skó og toblerone og bók. Mér var reyndar send bókin í pósti en hef enn ekki náð að sækja hana. Pósthúsið mitt er nefnilega í öðru bæjarfélagi.

Búandi í vesturbænum var eitthvað gáfnaljósið sem ákvað að pósthúsið okkar ætti best heima á Seltjarnarnesi.

Bókin sem Elísabet lét mig fá var Heilræði lásasmiðsins. Bókin hennar.

Þetta er svona alvöru bók, innbundin með yndislegri bókakápu sem skartar gyðjunni Bóbó og upphleyptum stöfum.

Hún er góð á náttborðinu.

Ég ætla að nýta frídaginn minn og lesa hana.

Skilst að ég sé í henni, eða allavega leðurstígvélin mín.

Kristrún Heiða skrifaði flottan dóm um bókina í Fréttablaðinu nú fyrir helgi.

Við drukkum te á Drafnarstígnum, Jóhanna var á fundi og er á leið til Líbanon í dag.

Elísabet sagði okkur sögur frá Írlandi og sýndi okkur flottustu stígvéli sem búin hafa verið til. Með prinsessu undir bleikum hælnum. Sannkölluð töfrastígvéli.

Þá uppgötva ég að ég var ekki með húslyklana mína... Hringi í Mána og hann kemur með Athenu, Rottweilerinn, og aukalyklana. Í millitíðinni hringir Jaana en hún stendur köld fyrir framan Hringbrautina. Hún ætlar að passa fyrir mig meðan ég skrepp erinda í Latabæ. Henni er líka stefnt á Drafnarstíginn. Að lokum er þarna orðið dágott partý en húsráðandi enn fjarri góðu gamni.

Þetta endaði allt vel.

Daginn eftir er væg gubbupest að heimsækja okkur þannig að ætluðum piparkökubakstri með vinkonum er frestað. Ég er eitthvað hálfslöpp og er að rabba við Kötu vinkonu í símann þegar Logi rekur upp skaðræðisöskur. Ég þýt fram og sé barnið í keng fyrir framan spegilinn með eyrnapinnaboxið í hendinni og blóðugan eyrnapinna á gólfinu.

Beið ekki boðanna og þaut útí bíl með hann og Birtu, beinustu leið uppá slysavarðastofu. Þar fékk ég að vita að hann væri búinn að gera gat á hljóðhimnuna og það blæddi úr eyranu.

Það er á svona stundum sem ég finn að ég er hlynnt einkalæknum og fegin að ég er ekki Britney Spears ...

Ég var send heim með barnið þar sem ekki væri unnt fyrir háls- nef- og eyrnalækni að taka á móti honum strax. Við fengjum ég ekki tíma fyrr en á mánudagsmorguninn. Tók manísku mömmuna á þetta og held að allt reddist. Drengurinn er nógu hress; ekki á honum að sjá.

Hann er samt með gat í eyra. Það grær vonandi hratt, þarf bara að fylgjast vel með.

Ég hef fengið veður af því að á milli bara bæjarins þvælist farandskáld og segi sögur af mér. Allsvæsnar.

Þó það sé falleg tilhugsun, að einhver finnist kona efniviður í sögur og flytji opinberlega, skilst mér að þessar sögur hans séu einhæfar og illkvitnar.

Ég ætla að taka viljan fyrir verkið og býð honum að lesa bara upphátt af blogginu mínu í staðinn. Ég held það kæmi betur út fyrir okkur bæði.

Hér er svo jólasveinamynd til að undirstrika að það er tími til kominn að panika fyrir jól.

2097729390_72ce94041e

sunnudagur, desember 02, 2007

Stöðvum öfgafemínistana

Mikið blöskrar mér framganga sumra félaga minna úr kvikmynda og sjónvarpsbransanum í kjölfar fréttar 24stunda um að nokkrar konur sem kenndu sig við femínisma höfnuðu að koma fram í þætti Egils Helgasonar.

Agli er svo sem vorkunn og hægt að sýna honum smá samúð þegar hann á 10 sekúndum afgreiðir þuluna um hvaða konur hafi komið í þáttinn til hans og tuðar um hvað þetta sé allt erfitt. Hann er þó greinilega ekki að skilja um hvað málið snýst og hefur ekki burði né bein til að hlusta á gagnrýnina og kryfja. Hann er tilfinningavera sem tekur allt of mikið inná sig. Virkilega óþægileg staða fyrir karlmann sem vill kenna sig við hlutverk gagnrýnanda í samfélaginu.

Allt í einu poppar svo Þorsteinn J. fram á völlinn og skrifar í Fréttablaðið í dag pistil undir yfirskriftinni "Kerlingavæl". Ég ætla ekki að fara í saumana á því hvað þetta eru barnaleg skrif af hans hálfu. En þegar hann vænir Drífu Snædal um að hafa ekki haft nein rök fram að færa í Kastljósumræðunni, þar sem hún mætti Agli til að ræða afstöðu sína, þá varð ég plaff!

Hvað á Þorsteinn J. við?

Er hann sem starfsmaður ríkissjónvarpsins að segja samning þess og menntamálaráðuneytisins gagnslaust plagg sem ekki beri að virða? Því að öllu öðru slepptu, kerlingavælinu eins og Þorsteinn kýs að kalla, að mínu mati, yfirvegaðan málflutning Drífu og Katrínar Önnu, er ekki hægt að horfa fram hjá ákvæðum þess samnings eins og Drífa benti á. Þar kveður nefnilega á um að gæta skuli jafnréttis og að kynjahlutföll sé sem jöfnust. Og í alvöru! Hafandi starfað við ýmsa dagskrágerð í gegnum tíðina finnst mér alls ekki að mér vegið þó kynjahlutföll séu gagnrýnd. Tek því fagnandi. Því gagnrýni álít ég ekki af hinu illa, þvert á móti. Kemur mér á óvart að gagnrýnendurnir Egill Helgason og Þorsteinn J. óttist hana.

En vonandi er Þorsteinn J. ekki í alvöru á því að samningin beri ekki að taka alvarlega, þá stendur eftir spurningin; hvað liggur að baki þessum furðulegu skrifum hans í Fréttablaðinu. Og hvort hann vilji meta kröfur um aukinn hlut íslenskrar dagskrágerðar með sömu rökleysu og hann beitir á jafnréttisbaráttuna. Ég man nefnilega sem barn þegar okkur bauðst ekki annað en kanasjónvarpið og þá var um alvöru skort á íslenskri dagskrágerð að ræða. Og náttúrulega óþolandi þessi mælistokkur sem verið er að troða uppá dagskrá ríkisútvarpsins sjónvarps um hlutfall innlendrar dagskrágerðar etc. Give me a brake.

Og strákar. Þið vitið að ég elska ykkur en það er ekki hægt að sitja þegjandi undir þessu. Ég er bara reið útí ykkur núna. Ykkur er velkomið að kíkja í kaffi og skamma mig. Í staðin fæ ég að halda smá fyrirlestur fyrir ykkur. Ég skal baka.

Sverrir Jakobsson er með fín skrif í Fréttablaðinu þar sem hann spyr hverjar öfgaranar séu? Kannski jafnréttiskrafan sjálf?

Kristján B. Jónasson skrifar svo frábæran pistil í morgunblaðið. Stal fyrirsögninni frá honum. Læt þann pistil fylgja hér með.

Ívikunni birtist frétt í 24 stundum
af því að þrjár konur sem allar
hafa haft sig frammi í umræðunni
um jafnréttismál á undanförnum
misserum, Drífa Snædal, Katrín
Anna Guðmundsdóttir og Sóley
Tómasdóttir, ætluðu ekki að koma fram í
Silfri Egils um ófyrirséða framtíð af því að
þær teldu forsendur umræðna þar ekki
jafnréttishugsjóninni til framdráttar. Við
fyrstu sýn vakti þessi frétt enga sérstaka
furðu. Áður hefur komið fram gagnrýni á
val viðmælenda í Silfur Egils á meðan sá
þáttur var á Stöð 2 og þar áður á Skjá einum.
Umræðan um stöðu kvenna í fjölmiðlum
á sér langa sögu og gerðar hafa
verið mælingar hérlendis jafnt sem erlendis
sem sýna að fyrirferð kvenna í umræðum
um samfélagsmál, stjórnmál og efnahagsmál
endurspeglar ekki þá einföldu staðreynd
að konur eru álíka fjölmennar og
karlar. Þetta mál hefur raunar verið svo ítarlega
rætt að bera myndi í bakkafullan
orðalækinn að þylja hér þá miklu litaníu af
með- og mótrökum sem jafnvel eldri frændur
geta þulið í fjölskylduboðum án þess að
fipast: röksemdir á borð við „konur hafa
engar sterkar fyrirmyndir ef þær birtast
ekki í fjölmiðlum“ eða „staðreyndin er að
konur eru í minnihluta í fjármálalífi og
stjórnmálum, er það mér að kenna?“ Allir
vita um hvað málið snýst. Fyrir vikið hefði
líklegast verið frumlegra að hlífa okkur við
enn einni ræðukeppninni um kosti og galla
femínisma og skoða þessa yfirlýsingu sem
vitnisburð um að feðraveldið eigi það sameiginlegt
með Rómaveldi að þurfa að ganga
í gegnum mjög langt hnignunarskeið áður
en það fuðrar upp nóttina þegar varðsveitirnar
gleyma sér við að súpa bjór sem
keyptur var í kjörbúð og hala niður ósíað
porn.
En einmitt vegna þess að við getum þulið
fyrirfram upp allt sem femínistarnir og
gagnrýnendur þeirra munu segja ætti umræðan
að vera óþörf. John Stuart Mill tíndi
þegar á 19. öld til í riti sínu um Kúgun
kvenna mjög einföld rök fyrir jafnrétti sem
maður skyldi álíta að væru komin eitthvað
áleiðis inn í hausinn á þeim velmenntuðu
ungu mönnum sem nú jarma í slíkum hysteríukór
á netsíðum um hættur „öfgafemínismans“
að eyfirska Lúkasarguðspjallið
frá því í sumar virkar næstum eins og
mjálm í samanburðinum. En það er nú aldeilis
ekki. Sú einfalda ábending Mills að það
sé sóun á mikilvægum hæfileikum og kröftum
að útiloka annan hluta samfélagsins frá
gæðum sem hinn hlutinn telur sjálfsögð er
einfaldlega ekki viðurkennd skoðun í
ákveðnum þjóðfélagshópum. Strax sama
dag og fréttin í 24 stundum birtist snjóaði
inn í netheima slíkum hópeflisblammeringum
um „öfgafemínistana“ Katrínu
Önnu en einkum þó Sóleyju Tómasdóttur að
maður varð hálf tómur í framan yfir heiftinni
og rætninni. Það er einfaldlega absúrd
að sjá hlið við hlið á bloggsíðum og vefsetrum
vandað efni úr pennum þessara ungu
karlmanna og síðan hatursrullur sem hafa í
mesta lagi gildi sem skoðunarefni á sviði
sálfræðinnar.
Samt hafa þær Katrín Anna Guðmundsdóttir
og Sóley Tómasdóttir í raun ekki
sagt og gert annað en það sem góðir og
vandaðir menn, hófstilltir andstæðingar
„öfgafemínismans“ á borð við Þorstein Siglaugsson
hagfræðing (tsiglaugsson.blog.is),
sem þjóðinni er kunnur sem maðurinn sem
reiknaði Kárahnjúkavirkjun út af borðinu
og Guðmund Magnússon sagnfræðing
(dv.is), sem þjóðinni er m.a. kunnur sem
höfundur bókarinnar um Thorsarana,
myndu hafa ráðlagt öðrum í sömu stöðu:
Maður haslar sér sinn eigin völl áður en
hólmgangan hefst. Annars eru átökin alltaf
á forsendum andstæðingsins. Þetta er
grunnatriði í almannatengslum og stjórnmálabaráttu.
En þessir herramenn auk
tveggja tuga annarra minni spámanna ýja
engu að síður sterklega að því að „öfgafemínisminn“
sé fyrir vikið skaðlegur frelsi
borgaranna, já og sumir, einkum margir
hinna minni spámanna, halda því raunar
blákalt fram að hann ógni samfélagsgerðinni.
Það eru engin ný tíðindi að þeir sem
eru sannfærðir um kosti frjáls markaðsbúskapar
og ókosti hverskonar íhlutunar
hins opinbera í líf og starf borgaranna líti
svo á að félagslegar röksemdir hópa í réttindabaráttu
séu varhugaverðar sósíalískar
hugmyndir sem hafi aukna forræðishyggju
og ríkisafskipti að leiðarljósi. Frjálsir einstaklingar
og haftalausir séu í fræðilegum
skilningi jafnréttháir hver öðrum og því sé
jafnrétti best tryggt með sem minnstri
íhlutun hins opinbera um þessi mál. Þetta
er falleg hugsjón sem er þess meira en verð
að hún sé útskýrð og varin. En af hverju er
mönnum um megn að setja þessar skoðanir
fram skilmerkilega og heimfæra þær upp á
aðstæður í okkar samtíma? Af hverju
bregðast menn við því sem femínistar á
borð við Sóleyju Tómasdóttur hafa að segja
með úlfúð, útúrsnúningi, háði, svívirðingum
og einelti? Hafa þeir miður góðan málstað
að verja? Því þegar rökþurrðin ein blasir
við setjast karlmenn með þrefalt háskólapróf
niður og fá klapp á bakið og ferföld
húrrahróp hjá félögum sínum úr ungliðahreyfingu
stærsta stjórnmálaflokks landins
fyrir að skrifa svona nokkuð (þetta á náttúrlega
að vera ofsafyndið): „Áður en ég
skelli mér í Valhöll að horfa á grófar klámmyndir
og borða fimm þúsund kalla með
100 ríkustu karlmönnum Íslands vil ég
beina þeim tilmælum til Sóleyjar að slappa
aðeins af.“ (Deiglan.com, 28.11.2007) Finnst
forvígismönnum ungra og aldinna sjálfstæðismanna
og sjálfstæðiskvenna þetta virkilega
frábært framlag til kynningar á hugmyndum
þeirra og hugsjónum?
Eftir Kristján B. Jónasson
kbjonasson@gmail.com

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Dekurdagur

Eyddi seinni hluta dags í gær í dekur. Spa.

599187_laugar_01Heitir pottar, gufur, gullglimmer og rúllur í hausinn.

Fór í frábæra veislu með ótrúlega góðum mat, rússneskt þema. Mikið af kampavíni og vodka.Product-ivanoff

Wasabi flugfiskahrogn, saltfiskur og lamb með hrökkbrauði og súrri gúrku. flying-fish Algjört delicatess.

Dansaði fram á nótt.

Er að jafna mig.

föstudagur, október 12, 2007

Góðann daginn í fyrramálið.

Það er góður dagur í dag.

Í gegnum svefnherbergisgluggann glittir í friðarljósið. Dálítið fyndið að allt skuli í loft upp í borginni sama dag og það er tendrað... Boðar vonandi nýja og betri tíma án einkavinavæðingar og græðgi.

Nú eru þeir að leita að geimverum í Arizona, virðast ekki hafa hugmynd um að við erum hér.

Ég ætla í smá bloggfrí þangað til bíóið er tilbúið og Latibær afgreiddur og stuttmynd eða tvær að ógleymdri frumsýningu Stígamótagleðinnar.

knús.

p.s. Logi er enn bara 2 ára en er mikið fyrir að taka ljósmyndir. Hér eru nokkrar myndir sem hann tók. Bara til að gleðja ykkur. Sjónarhornið er jú alveg stórkostlegt!



Birta í sófanum.


Mamma að elda.

Og af því að Kata minnist á það...




Þá er hér mynd af Kötu skælbrosandi.

Og hér er svo myndasmiðurinn alveg búinn eftir daginn.


miðvikudagur, október 10, 2007

Birta á afmæli í dag!

Orðinn átta ára. Og ég klökk.

Mikið rosalega líður tíminn hratt. Þetta er yndislegi töffarinn minn sem sigldi með mér yfir ermasundið til vinnu í Kaupmannahöfn daginn eftir að hún fæddist. Varð yngsti "pendlarinn" aðeins vikugömul með löggilt kort á ferjuna. Í sex mánuði sigldum við saman, næstum á hverjum degi.

Alltaf með marbletti um allar lappir, prílandi og hoppandi útum allt.
Nú er hún átta ára og meira að segja talandi á ensku. Stóð sig með mikilli prýði í samræðum við þær Nouriu og Maryam sem komu í mat í kvöld með henni Jóhönnu Kristjónsdóttir. Systurnar frá Jemen sungu fyrir hana afmælissönginn bæði á ensku, frönsku og arabísku. Það var frábært. Ég ætla að blogga meira um Nouriu og Jóhönnu og VIMA og YERO við tækifæri. Hvet ykkur til að missa ekki af Kastljósinu í kvöld, þar á að vera viðtal við Nouriu.

Og Birta elsku Birta mín ; TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!




DSC00827

Birta%20og%20Logi%20006

P1010152

laugardagur, október 06, 2007

Þetta líf.

Þetta líf er alveg að fara með bloggið mitt. Lífið tekur allt of mikinn tíma.

Ef ég væri ekki svona upptekin gæti ég bloggað um Óbeislaða fegurð í bíó - endilega drífið ykkur á hana. Stórkostlega skemmtileg. Ég gæti líka sagt ykkur frá bikarnum sem Argo fékk og gerði hann Mána sinn stoltan. Ég gæti sagt ykkur frá kríunum í Flatey. Ég gæti sagt ykkur frá Britney Spears dansinum sem ég tók í partýinu.

En nei; back to live, back to reality,

Back to the here and now yeah

However do you want me
However do you need me
How, however do you want me
However do you need me
However do you want me
However do you need me
How, however do you want me
However do you need me

Back to life, back to the present time
Back from a fantasy Yeah

sunnudagur, september 30, 2007

Af kommum og skilgreiningavaldi.

Var að koma af Bessastöðum. Freyðivín í glas, kransamunnbiti og skemmtilegur félagsskapur. Mest var gaman að fylgjast með andköfunum sem amerískir gestir tóku þegar Kaurismaki hrósaði forsetanum fyrir það að hafa ekki breyst eftir að hann varð forseti. Hann hefði verið kommi og væri enn kommi. Ameríkanarnir supu hveljur og frusu og roðnuðu. Forsetinn brosti umburðalyndur og þá tísti í Kaurismaki.

Það heillar erlenda gesti alltaf jafn mikið að ekki skuli vera víðtæk öryggisgæsla og vopnaleit áður en forsetanum er mætt. En eins og Ólafur Ragnar segir gjarna í ræðum sínum; við viljum líta á gesti okkar komandi í friði þangað til annað sannast.

Það er líka einstætt að geta vafrað frjálst um Bessastaði og meðhöndlað sverð og kuta sem gefnir hafa verið, oft af erlendum aðilum.

Hér er Vera Sölvadóttir að munda víkingasverði. Koolisti.

Fyrr um daginn stjórnaði ég umræðum í Norræna húsinu. Naflaskoðun er alltaf af hinu góða og mikilvægt fyrir kvikmyndagerðarmenn eins og aðra, að skoða verk sín og hugmyndir útfrá mismunandi breytum. Um hverjir sátu í pallborði má lesa í fyrri færslu minni, og umræðurnar sem fylgdu voru fjörugar.

Margir þekktir kvikmyndagerðarmenn voru mættir á staðinn, sem allir eiga það sameiginlegt að hafa lagt hug og hjarta í íslenska kvikmyndagerð. Karlar jafnt sem konur.

Til umræðu kom skilgreiningarvald, bæði leikstjóra og áhorfanda. Platón kom uppá borð með það að listin væri lygi sem hann síðar snerist hugur um og sagði þá listina viðleitni til að segja sannleikann. Kvikmyndir skapa raunveruleikann. Listrænt forræði í ljósi samframleiðslusamninga var rætt. Framlag kvenna fékk þó mesta plássið. Konur eru margar í kvikmyndagerð, en oft á bak við tjöldin. Konur eru ekki nógu sýnilegar og eru fámennar meðal handritshöfunda og leikstjóra. Konur eiga að hafa sama aðgang að fjármagni, en eru ekki að sækja um. Hugsanlegar ástæður voru ræddar fram og aftur. Bæði skilgreiningavandi, skortur á fyrirmyndum og skortur á viðurkenningu. Niðurstaðan varð sú að kyn skiptir máli en meðvitund skiptir mestu máli. Eða eins og Katrín Anna orðaði það svo skemmtilega; þó kynin myndu kjósa það sama skiptir máli að bæði karlar og konur hafi kosningaréttinn.

Ég fór út meðvitaðri og sannfærðari um að íslensk kvikmyndagerð á eftir að blómstra enn betur. Það er stórt skref í rétta átt að hægt sé að ræða þessi mál á vitrænum nótum, með hag kvikmyndagerðar í brjósti. Það getur eingöngu skilað kvikmyndasögunni fjölbreyttari sögum og karakterum.

laugardagur, september 29, 2007

Af Óskari og íslenskri kvikmyndagerð.

Allt búið að vera á hvolfi. Mikið að gera og margt að dunda. Sérstaklega eftir að ég hitti nýja endurskoðandann minn!

Myrin

(ath. að myndin er ekki af nýja endurskoðandanum mínum!)

Gleðifréttirnar eru þær að Mýrin var valin framlag Íslendinga til forvals Óskarsverðlaunanna. Það væri stórkostlegt ef hún yrði tilnefnd. En ótrúlegt.

Þær íslensku kvikmyndir sem hafa verið tilnefndar til Óskarsverðlauna eru "Börn náttúrunnar í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar árið 1991 og stuttmyndin "Síðasti bærinn í dalnum" árið 2006 í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar. Pæliði í því hvað við erum frábær þessi litla þjóð.

Á morgun, sunnudaginn 30.september, klukkan 13.00 í Norræna Húsinu, verður spennandi umræðufundur í boði Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðarinnar og KIKS, kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi.

Yfirskriftin er í stuttu máli : Hvaða sannleika er að finna í íslenskum kvikmyndum? Endurspegla þær heiminn sem er fyrir? Eiga þær sér stoð í samtímanum og er sögutúlkun þeirra
mikilvæg komandi kynslóðum?

Í pontu stíga Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar
Íslands,
Sigríður Þorgeirsdóttir dósent í heimspeki, Sigríður Pétursdóttir
kvikmyndagagnrýnandi, Katrín Anna Guðmundsdóttir viðskipta- og
markaðsfræðingur, Írís Ellenberger sagnfræðingur og Kristín Atladóttir
kvikmyndagerðarmaður.

Ég læt mig svo dreyma um fjörugar og inspírerandi umræður í kjölfarið! Enda yours truly, ég sjálf, fundarstjóri.

Svo hvet ég alla til að fara í bíó meðan hátíðin stendur yfir. Fullt af konfekti og ekki síst á meðal heimildamyndanna. Lokadagur er 7.október.

Sjáumst.

fimmtudagur, september 20, 2007

Ertu femínisti?

Hafði gaman af því að skoða þessi brot úr heimildarmyndinni "I Was a Teenage Feminist".


Therese Shechter er heimildagerðarkona frá Brooklyn. I WAS A TEENAGE FEMINIST er fyrsta myndin hennar og er frá 2005.
Fyrsta brotið sýnir hóp af konum svara því hvort þær séu femínistar.

Seinna brotið er Therese að velta því fyrir sér hvað varð um hennar eigin femínisma. Hún var aktívur femínisti þegar táningur en um fertugt fattaði hún að hafa ekki hugsað um femínisma í mörg ár. Þá fór hún að velta því fyrir sér hvort hún hafi týnt femínismanum sínum og þeim krafti sem hann gaf henni, eða hvort femínisminn hennar hafi týnt henni. Mig langar að sjá þessa heimildarmynd og vita hver niðurstaða hennar varð.







Á bloggsíðunni hennar Kötu vinkonu er athugasemd frá honum Þorgeiri um að það sé aðdáunarvert hvernig femínistabloggararnir Katrín Anna og Sóley haldi yfirvegun sinni þrátt fyrir bullið sem veltur yfir þær í kommentakerfum þeirra. Mér datt sú athugasemd í hug þegar ég sá þetta viðtal Ali G við kynjafræðinginn og femínistann, prófessor Solis. AliG undirstrikar enn og aftur að hann er ekki vitlaus og tekur fyrir allar klisjurnar um femínista og prófessor Solis tekur því með stóískri yfirvegun og dippu af húmor. Drepfyndið.



mánudagur, september 17, 2007

Starring Cate Blanchett

Úff púff. Það er aldeilis búin að vera törn síðustu vikur. Vinnan og lífið.

En þegar kona fær símtal eins og í fyrrakvöld, frá frábærum konum stöddum á Grænlandi, verður allt þess virði. Þetta voru Stígamótakonur sem hringdu eftir frumsýningu á kvikmynd um hringferð sína um Ísland í sumar. Þetta er ekki heimildarmynd í hefðbundnum skilning, meira svona gleðimynd. Og á norrænni ráðstefnu á Grænlandi vakti hún líka þessa miklu lukku. Ég er svo hamingjusöm fyrir hönd þessa hóps, sem hefur unnið svo flott og mikið starf á hjartatauginni einni saman, því ekki vaða þær í fé né úrræðum. Bravó. Það var hún Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir sem leikstýrði myndinni. Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert var að vinna með henni úr þessu efni frá ferðinni. Svo mikil gleði. Ég held ég sé aðeins betri manneskja eftir þetta.

Fyrir utan vinnu hefur lífið verið.... hvað get ég sagt... fjörugt!?

Eldhúshillurnar hrundu og með þeim fór í gólfið gullbryddaða stellið frá Ömmu Elísabet, erfðargossið mitt. Öll vínglösin, föt og skálar. Og eldhúsborðið mitt og rándýr eldhússtóll. Allt semsagt brotið og bramlað. VÍS gekk í málið og áður en vikan var liðin var allt bætt og búið að gera við borðið. Algjörlega til fyrirmyndar og á skjön við margar sögur sem kona heyrir. Topp þjónusta.

Hef reglulega átt í súrrealískum samræðum við Ogvodafone. Ekki súrrealískum ala auglýsingarnar þeirra heldur súrrealískum ala "ég er að kaupa af ykkur vöru en er ekki að fá hana en þarf samt að borga" "já því miður þannig er það bara" samræðum. Ég tilheyri semsagt þessum 5%. Svo enduðu þeir á því að kenna Securitas um tengingarleysi mitt og töldu sig þannig fría frá ábyrgð. Tilheyra samt allir Mömmu sem seldi mér pakkann á þeim forsendum að það væri svo fínt að hafa þetta allt undir einum aðila. En það þýðir ekkert að hringja í Mömmu af því að þar taka þeir ekki á móti veseni, þar er bara verið að selja þjónustu. Allir tilheyra 365 miðlum, svona eins og Saga Film sem óvart framleiddi auglýsingu fyrir símann undir merkjum OgVodafone. Súrrealískt. Jamm.

Tókst með naumindum að stoppa nauðungarsölu á íbúðinni minni. lokadÁkvað að lesa þetta leiðindabréf frá Tollstjóra, núna á fimmtudagsmorguninn, rámaði eitthvað í að dagsetningin hefði tilheyrt deginum. Jújú, uppboð á íbúðinni klukkan 10.

Þetta var barasta eins og í bíómynd hvernig ég dreif börnin út í skólana og hentist niður til Tollstjóra með hnefann á lofti. Leit örugglega út eins og hún Trinity í Matrix, í svartri síðri regnkápu frá 66gráðumnorður. Þeim hjá Tollstjóra fannst ég ekki hafa staðið mig við innheimtustörf fyrir þeirra hönd. Launalaust starf að vísu, en kröfurnar endalausar. Ætluðu að kenna mér lexíu með einhverju sem má líka við selfirskan þvaglegg. Auðvitað var þetta ekki alveg svo slæmt að komið væri að hamarshöggi, þó ekki hafi verið hægt að skilja bréfið öðruvísi. Mér þætti við hæfi að þeir hjá tollstjóra lærðu að senda emil, ég les emilana mína. En opna varla bréf frá opinberum aðilum. Aldrei vitað einhverja gæfu falda í pósti frá þeim.

bandits2

Keypti mér nýja uppþvottavél því sú gamla dó. Leitaði lengi að vél sem er ekki með ritgerð og ljósashowi framan á sér. Fann eina. Hún á að vera ein sú hljóðlátasta á markaðnum. Einmitt. Það líkist helst tónleikum rokksveitar þegar hún er sett í gang. En með tímanum venst maður þessu og nú finnst mér þetta vinalegt hljóð. Upplifi að ég sé að taka þátt í uppþvottinum þegar ég heyri vélina nuddast í hverri skál.

Svo vaknaði ég upp við það á föstudagsmorguninn að Logi tróð hægri löpp sinni uppí andlitið á mér og vildi að ég kyssti á bágtið. Mér sýndist hann bólginn og að hann væri með aðskotahlut, jafnvel glerbrot, uppí löppinni.

Í stað þess að fara með hann í leikskólann fórum við uppá slysavarðstofu. Þar eyddum við hátt í tveim tímum og niðurstaðan var sú að drengurinn er með vörtu á ilinni. Mikið er ég fegin að hafa ekki hringt á sjúkrabíl!

houseEn þarna hitti ég alveg frábæran lækni, svona íslenska versjón af dr.House (og nú veit ég að Jenny þarf skyndilega á slysavarðstofuna ), hann sagði mér að ekki brenna burt eða eitra fyrir vörtunni. Að þetta væri vírus og engin önnur leið en láta hann ganga yfir. Ekki frekar en það teldist ráðlagt að brenna burt hlaupabólu. Reyndar tekur varta lengri tíma, tæki hana allt frá 3 mánuðum uppí 3 ár að hverfa. Ég hafði verulegar áhyggjur af því að þetta væri erfiður staður fyrir vörtu. Drengurinn haltraði jú um. En hann sagði mér að taka steininn úr skónum með því að kaupa innlegg, klippa gat fyrir vörtunni og setja í skóinn hans. Snilldarráð sem dugar okkur vel. Æ, ég hef alltaf svo gaman af því að rekast á svona lækna sem geta talað mannamál við mann og gefa tíma þó tilefnið sé ekki hættulegra en varta.

Ég er búin að vera að upplifa nýja tegund af lágvöruverðsverslun í Krónunni úti á Granda. Og það er upplifun í lagi. Ekki endilega verðið eða útlandslookið sem skapa nýja upplifun, heldur hreinar körfur og kerrur. Það sem lendir þar, veltist ekki uppúr margra ára kjötsósugrænmetisþurrkaðriklísturklessu. Alveg frábært.

Á hverjum morgni vakna ég nú upp við regnboga í eldhúsglugganum mínum. Eftir að ég setti filmuna í gluggann, til að byrgja útsýni fyrir gluggaóðafólkinu á móti mér, fellur ljósið þetta skemmtilega.1388440667_137de921e3

Það er yndislegt að drekka kaffið sitt undir regnboganum. Ekki að það hafi fært mér kistu af gulli.

Logi er farinn að vinna. Hann hertekur tölvuna mína og ef ég kvarta, hrópar hann ákveðinn: "Ég er að vinna". Hristir hausinn og biður mig frá að hverfa.

1388444951_e196cfc3e8

Ótrúlegt hvað framkvæmdagleði er í engu samhengi við getu. Logi hefur mikla framkvæmdagleði en litla getu og enga skynsemi. Algjört krútt. Systkini hans sem öll hafa meiri getu og góðan skammt af skynsemi hafa tapað allri framkvæmdagleði. En auðvitað er það mér að kenna. Mömmunni. Örugglega.

Maður berst gegn framkvæmdagleðinni meðan skynsemin er lítil. Logi fær til dæmis ekki að sjóða sitt kakó sjálfur, hann fær ekki að skera eplið, hann má ekki klippa buxurnar sínar, hann má ekki endurforrita tölvuna mína. Honum finnst örugglega hann ekkert mega gera. Og þannig ber maður úr þeim framkvæmdagleðina. Birta liggur allavega sátt í sínum baunapoka og ef beðin út með ruslið eða að sækja mjólkurpott útí búð, svarar hún án undantekningar; "ég er bara barn".

1389340456_05c4abe861

Ég má alls ekki setja inn mynd af Sindra. Er enn í frystikistunni eftir að hafa sett inn sundmyndina af honum. En kannski er ég bara í þessari frystikistu af því ég er ekki bara leiðinleg heldur líka forréttindafemínisti.

Er dálítið eyðilögð yfir því að vera talin svona leiðinleg. Er að pæla í því að fara á námskeið. Ætti að komast að þar sem mér líður ekki deginum eldri en 12 ára.

En hvað forréttindafemínisti þýðir veit ég ekki. Kannski einhver geti hjálpað mér með skilgreiningu á því fyrirbæri. But please luv me. Ég umber ekki tilhugsunina um að jafnvel sköllóttum drykkjuboltum finnist ég leiðinleg. Og mér er full alvar. Fékk hnút í magann og velti mér uppúr því í marga daga hvað ég hefði gert vitlaust. Svona gerir maður bara ekki þó kona sé ekki fegurðardrottning í blautbol. Segja konu leiðinlega.

Allavega, ef þetta endar alltsaman í bíómynd held ég að Cate Blanchett henti ágætlega í aðalhlutverkið.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Diskó í kaskó.

Af því að ég hef ekki haft neinn tíma til að blogga.  Og af því að betra er að hafa lífið í kaskó, sérstaklega þegar eldhúshillurnar hrynja og allt leirtauið fer fyrir lítið.  Líka erfðarstellið frá henni ömmu.  Af því að vikulöng aðlögun prófessjónellra leikskólabarna er fáránlegt fyrirbæri og líka mannekla á skóladagheimilum.

Þá vil ég að þið lærið að dansa diskó.  Vonandi segir þetta allt og hjálpar ykkur að dansa gegnum lífið.

Lets diskó.  Allavega á finnsku.



sunnudagur, ágúst 05, 2007

Grautur í haus

stolÉg lagði það á mig um helgina að afsanna þá kenningu að drykkja á hreinu vodka væri betra fyrir mann en önnur drykkja. Reyndar blandaði ég saman vodkategundum - íslenskt Reykjavodka tók við þegar Stolichnaya flaskan var búin. En tel þó sannað að magnið sé það sem setji graut í hausinn, ekki tegundir.

Lappaði uppá sjálfa mig með góðri sundferð og gufu. Sakna Sindra sem er enn í góðu yfirlæti í Falsterbo.
Hér er gömul mynd af honum í sundi.


Og p.s.

happathrenna_boxvirkar ekki.