miðvikudagur, apríl 18, 2007

Bakið.

Ég vildi óska að ég væri í standi til að skrifa færslu um frábæran landsfund Samfylkingarinnar sem fór fram síðustu helgi.

Stemmingin og samhugurinn á fundinum var stórkostleg upplifun.

Fá að heyra Monu Sahlin og Helle Thorning tala um mikilvægi kvenna í pólitík og sérstaklega hversu mikilvægt það væri að þær væru þar á sínum eigin forsendum. Þannig nýtist reynsluheimur þeirra samfélaginu best.

Fá að sjá Ingibjörgu Sólrún og heyra. Frábær leiðtogi sem kemur með nýja sýn á pólitík og breytir umræðunni. Það er hún sem kemur inn með samráðspólitík, eitthvað sem er nauðsynlegt skref fyrir okkur að taka. Sérstaklega í ljósi breyttra aðstæðna. Við þurfum að vera í góðu sambandi við markaðinn sem er farinn að ráða meiru en pólitíkusar.

Ekki var það síðri upplifun að sjá Bjarna Ármanns í bleiku slifsi með bleika baráttumynd í bakgrunnin tala um afnám launaleyndar og mikilvægi þess að feður tækju virkan þátt í að sjá um heimili og börn.

Sjá Þórólf Árnason brillera - jiiiii hvað ég er skotin í þessum manni núna - og ítreka að þeir sem sitja í stjórnunarstöðum og hefta framgang kvenna séu ekki að standa sig í stykkinu. Það hafi ekki verið vandamál í borginni að hleypa hæfum konum að og ekki tekið hann nema mánuð að bæta stöðuna í Skýrr.

Vilji er allt sem þarf.

Steinunn Valdís leiddi þessar umræður þar sem Svava Grönfeldt kom einnig upp og talaði ásamt fleirum. Ég fékk gæsahúð þegar Steinunn kom svo í pontu og gaf okkur inspírerandi lokaorð og undirstrikaði að jafnréttismál þyrftu að vera framarlega á oddinum í komandi kosningarbaráttu. Flott kona hún Steinunn.

Verð líka að minnast á Þórhildi Þorleifs. Hún er viskubrunnur og yndislega róttæk. Hún hélt utan um landsfundinn, bæði útlitslega en ekki síst hafði hún puttana í innihaldi og uppröðun atriða. Algjör snillingur.

Ég er kona – þess vegna er ég jafnaðarmaður. Þetta eru orð Monu og ég ætla að leyfa þeim að verða mín.

Ekki var ballið á eftir amalegt. Rosalega gaman og dansað fram undir morgun. Samheldinn hópur og geggjað fjör.

En ég er semsagt ekki í standi til að blogga um það.

Búin að liggja hér nú í á þriðja sólarhring með skelfilegan bakverk. Get mig ekki hrært.


Ætlaði fyrst að harka þetta af mér með smá panodíl og rótsterkum gin , en ástandið bara versnaði.

Þá fékk ég mér Voltaren Rapid, og tók smá Önnu Nichole á þetta. Bruddi þær eins og sælgæti. Án nokkurs árangurs. Bakið bara versnaði ef eitthvað.

Þá hringdi ég í símatíma hjá heilsugæslustöðinni minni í morgun til að biðja ráða. Uppúr átta. Í hvert sinn sem ég hringdi fékk ég símsvara.

Ég hringdi að lokum í heilsugæslustöðina til að spyrja hvort ekki væri rétt að símatími væri í gangi. Jú, sko ef þú færð símsvarann ertu númer tvö í röðinni. Annars færðu bara upptekinn tón. Algjörlega. Að ég skuli ekki hafa látið mér detta þetta í hug.

Loksins þegar ég fékk samband, fór helmingur tímans sem ég fékk í að frekar fúllyndur hrokagikkur útskýrði fyrir mér að hann væri ekki heimilislæknirinn minn. Minn læknir væri með símatíma eftir hádegi. Mér tókst samt að væla út betri lyf. Hann ætlaði að senda beiðni í næsta apótek.

Vegna þess að ég get mig ekki hreyft fékk ég son minn til að sækja þetta þegar apótekið opnaði klukkan níu. En nei, enginn lyfseðill kominn.

Ég hringdi í heilsugæsluna til að leita skýringa; jú sko þau senda fyrst frá sér beiðni eftir fjögur á daginn. Reynið að ímynda ykkur hvað ég blótaði.... það leiddi þó til þess að þau föxuðu lyfseðli.

Síðan hef ég brutt Parkódín forte og Somadril. Jú, jú eftir vænan skammt rotaðist ég og náði svefni en þegar ég vaknaði var mér alveg jafn illt í bakinu og get mig enn ekki hrært.

Fékk upplýsingar um baksérfræðing sem væri mega góður og rétti maðurinn til að sækja lækningar hjá. Hringdi á stofuna hans en fékk að vita að hann tæki ekki nýja sjúklinga. Ég spurði hvort tilvísun frá heimilislækni myndi hjálpa og fékk svarið: það er reynandi.

Þá sló ég á þráðinn í símatíma heimilislæknisins míns. Það var stöðugt á tali og þar sem gefinn tími er naumt skammtaður var ég orðin hrædd um að missa af honum. En loksins fékk ég samband við konu á skiptiborði sem tjáði mér að símatíminn hefði fallið niður vegna veikinda.

Það er nefnilega það. Búin að eyða hálftíma í gagnlausar hringingar.

Og það gerði akkúrat ekkert fyrir bakverkinn minn.

Nú er ég bara komin í prívatpotið. Búið að kalla til alla lækna í fjölskyldunni og lækna í vinahóp til að koma mér inn til sérfræðingsins. Geri samt ráð fyrir að enda uppá slysavarðstofu fyrir kvöldmat.

Nú kannast ég við Siv Friðleifs og er að velta því fyrir mér hvort ekki sé best að hringja í hana. Ekki að hún geti frekar reddað mér tíma hjá sérfræðing frekar en ofangreindur læknahópur. Heldur til að ræða við hana af hverju staða heilbrigðismála er svona slæm.

Nú er ég ekki verst stödd. Hef í gegnum sjálfboðastarf mitt heyrt ótal sögur af fólki sem nær engu sambandi við þá lækna og sérfræðinga sem það þarf á að halda. Fólk sem hefur átt við erfið veikindi að stríða í jafnvel mörg ár. Þekkir ekki persónulega lækna eða aðra með tengingar sem geta komið því þangað sem það þarf að vera.

Og spurning mín til Siv væri því hvort verið sé að halda þessum málaflokk í flækju í von um að það flýti fyrir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins??? Það er fullkomlega fáránlegt ástand. Svo mikið er víst.

Slysavarðstofan virðist vera eini beini tengiliðurinn við þá sérfræðinga sem hugsanleg þörf er á – getur það verið eðlilegt?

Getur slysavarðstofan sinnt hlutverki sínu meðan þetta er ástandið?

Ég geri fastlega ráð fyrir að vegna “stöðu”minnar (lesist vinahóps) fái ég fljótlega þá aðstoð sem ég þarf á að halda. En í velferðarríki á það ekki að vera raunin. Í alvöru velferðarríki eiga allir rétt á þeirri læknisaðstoð sem til þarf. Enginn á að þurfa að liggja óáreittur í sínum sársauka og krankleika vegna þess að sérfræðingar eru innmúraðir bak við kerfi sem er ekki að virka.

Allavega.

Svo er ég í skýjunum yfir henni Ingu Lind hjá Stöð 2. Flott umfjöllun hjá henni. Ég dissaði hana einu sinni þegar beðin um að koma og ræða klámvæðingu með Geira í Goldfinger. Á þeim forsendum að ekki á að flagga Geira, sem í mínum augum er ótíndur glæpamaður, sem valid álitsgjafa. Nú ætla ég að hrósa henni og vona að þetta sé það sem koma skal. En er ekki í neinu standi til að blogga um það heldur.

Ái.


Engin ummæli: