laugardagur, júní 30, 2007

Þemadagur.

Úff Púff. Sumir dagar eru bara öðruvísi en aðrir.

Í dag eyddi ég sólinni á bak við tölvu og með birgða glugga. Kallast vinna en er á svona sumardögum bara pynting.

Kom heim og ákvað að taka fataskápinn hennar Birtu í gegn. Á bak við gamla kjóla og óhrein nærföt, sem hún hafði snyrtilega troðið á bak við hengi í skápnum, fann ég líka þessa áhugaverðu tilraun.

P1010443Ég ætla ekki að þykjast vita hvað þetta er. En, lögurinn var bæði farinn að gerjast og mygla. Lyktin .... hvað get ég sagt? ... áhugaverð.

Eftir skápatiltekt, og förgun eiturefna, skelltum við okkur í grill til vinkonu minnar. Grasekkja með eitt stálpað barn tvo ketti og hamstur. Ég með Sindra, Birtu og Loga. Áttum yndislegt kvöld með lambi og ferskum ananas, kaffi og köku.

SP_A0322SP_A0320
(myndir frá garðveislunni úr símanum mínum)

Seinna kom Máni með Rottweilerinn hana Athenu. Ég og Sindri erum nefnilega að passa hana í kvöld.

Aþena er fagur og blíður Rottweiler. Það fannst hinsvegar öðrum heimiliskettinum ekki. Veit ekki hvort kattarskömmin er illa veruleikafirrt eða ótrúlega hugrökk. Þegar við settumst inní stofu með kaffibolla og Simpson í sjónvarpinu, tók allavega kötturinn sig til og réðst á Aþenu. Við áttum í fullu fangi með að koma í veg fyrir að hundurinn æti köttinn.

Við ákváðum að setjast aftur útí garð með Aþenu. Birta og tveir drengir urðu eftir til að horfa áfram á Simpson. Eftir skamma stund kemur Birta allt í einu út og er eitthvað hálf tekin. Skelfur smá. Hún var sett í peysu af því við héldum að henni væri kalt. Svo kemur hún til mín og vill bara fara heim. Ég sættist á það og við kveðjum og þökkum yndislegt kvöld.

Mér tókst að hlaða litlu áldollunum mína, sem sumir kalla bíl, með þrem börnum, einum Rottweiler og einum hamstri. Ókey. Ég er að fara of hratt yfir sögu.

Sko. Heimilismóðirin sem við heimsóttum var að gefast uppá hamstrinum sem enginn nennti lengur að sinna. Eftir að mitt klan hafði svarið og sárt við lagt að þau elskuðu hamsturinn og ég myndi aldrei þurfa að koma nálægt því að annast hann ,
samþykkti ég að hann kæmi með okkur.

Já ég er jafn eftirlát og auðblekkt og ég lít út fyrir að vera.

Allavega.

Á leiðinni heim, í þrengslunum í dósinni, segir Birta; "Þegar við komum heim ætla ég að segja ykkur dálítið sem er algert leyndarmál. Það má ekki segja það neinum!"

Við í kór: "Nei, nei segðu okkur núna!"

Þá brettir Birta upp annarri peysuerminni og er öll rifin og tætt og blóðug. Ég segið ykkur í alvöru þetta var ljótt. Hún var í sárum upp allan handlegginn.

Þá hafði kötturinn verið svo æstur eftir að hafa ekki fengið að slást við Rottweilerinn, að hann réðst á Birtu þegar hún lá uppí sófa yfir Simpsonþættinum.

Þess vegna hafði hún komið með skjálftann út og viljað heim.

Ég hentist upp Hringbrautina. Henti út Sindra og Loga, hundinum og hamstrinum, fyrir utan heima. Fór beinustu leið uppá Læknavakt með Birtu.

Þar hitti ég fyrir ef ekki barasta yndislegasta lækni í heimi. Honum tókst að sótthreinsa vandlega sárin, þó illi sviði undan, og pakka þeim inn. Það er sko afrek og þarf mikla færni í mannlegum samskiptum þegar Birta er annars vegar. Svo þurfti í apótekið eftir sýklalyfjum. Af því klórið var svo mikið og djúpt var ekki ráðlagt að taka sénsinn að sleppa lyfjunum. Loksins heim þegar klukkan er að ganga ellefu.

Heima hafði Logi sofnað á stofugólfinu. Aþena lá við hliðin á honum og vaktaði hann. Athena er mikið hrifin af Loga. Hún er ekki eins hrifin af móðurhæfni minni. Finnst ég ekki vakta drenginn nógu vel. Athena á það til að skamma mig, líka þegar henni finnst ég ekki beita drenginn nægum aga.

P1010447P1010448

Það fer ekki lítið fyrir því hvað Birta er montin af sárum sínum. Þá sérstaklega umbúðunum og sýklalyfjunum.

P1010450Ég held hana dreymi ör sem hægt er að flétta inní magnaðar sögur, um ókomna framtíð. Ég hef ekki enn spurt Birtu af hverju engum mátti segja frá klórinu. Enda segir hún núna öllum sem vilja það heyra. En ég tel hún hafi óttast það að kötturinn yrði skammaður og einhverstaðar held ég að þessi skapstóri snillingsengill minn hafi skilið frústrasjón kattarins sem ekki átti séns í hundinn.

Hér er hún í lok dags, eins hamingjusöm og hægt er að vonast til að verða, með hamsturinn Kalla sem nú heitir Lúlli.

P1010457

Þema þessa dags var semsagt heimilisdýr.

Engin ummæli: