sunnudagur, júní 24, 2007

Geimrannsóknarstöðin hans Megasar.

Við löbbuðum í góða veðrinu í gærkveldi niðrá Austurvöll. Ætluðum að fá okkur að borða úti í kvöldsólinni. Þetta var rétt fyrir níu og varla þverfótað fyrir illa drukknum óárennilegum karlmönnum. Þá meina ég þessum af verstu sort. Svona handrukkaratýpum. Æpandi og ógnandi - þó aðallega hvor öðrum.

Fengum okkur hamborgara og franskar og bjór á Red Chili. Af því að þar var sólin og útlendingarnir. Horfðum á fyllibytturnar eins og þær væru leikþáttur í boði hússins.

Ekki var einn einasti lögregluþjónn sjáanlegur. Ekki allt kvöldið.

Ákváðum að skella okkur á tónleika með Megas og KK og Hjálmum í geimrannsóknarstöðinni, hinum megin við völlinn. Tónleikar sem áttu að byrja á miðnætti.

Við vorum látin bíða í rúman klukkutíma. Í alvöru. Strákar. Þið eruð ekki alveg nógu sætir til að láta bíða svona eftir ykkur. Rúmlega eitt byrjaði fjörið.

Gaman að sjá að á NASA mætti fólk á öllum aldri. Líka voða mikið af því illa drukkið. Það var fjör útí reyknum. Heyrði þessa gullvægu setningu þar: "Reykingarbannið blekkir." Það var ung stúlka sem hélt að þetta væri röðin inná staðin og varð svona líka fegin þegar hún fattaði að þetta voru bara gestir að fá sér sígó.

Ég var komin heim áður en Megas steig á sviðið. Prinsippmál.

Engin ummæli: