mánudagur, mars 10, 2008

Vilji er allt sem þarf.

Það var flott að sjá þessar sterku konur sem heimsóttu Mannamál í gærkveldi, þær Hlíf og Bergrúni.

Við verðum að fara að aflétta skömminni af fórnarlömbum heimilisofbeldis. Það er þeirra að bera höfuðið hátt og ofbeldismannanna að taka við skömminni. Það var sú ímynd sem ég fékk af þessum konum; með höfuðið hátt, í dag frjálsar en ofbeldismenn þeirra eiga enn eftir að taka út opinbera skömm og alveg bannað að nafngreina þá. Ef þessar flottu konur gerðu það ætti þær yfir höfði sér þyngri dóma en þessir kallar nokkur tímann fyrir ofbeldið sem þeir beittu þær árum saman. Þetta er réttlæti íslenska dómsvaldsins í dag. Ekki mitt réttlæti.

Konurnar í Mannamáli skipta mig miklu máli; þær ganga í fararbroddi og ryðja vegin fyrir fleiri og fleiri konur til að stíga fram og segja sögu sína.

Jón Steinar steig líka fram. Sjálf sá ég ekki ljómann í því. Eigum við, svona til að byrja með, að samþykkja það slæmt að dómari eigi erfiðara með að hlusta en að tala!? Af hverju var hann þá að sækja í dómara starfið?

Ég veit heldur ekki hvað þarf marga fjölmiðlafulltrúa til að réttlæta misréttið innan dómstóla landsins. Dómarar hafa svosem heldur ekkert verið þegjandi. Á vef dómstólanna má finna greinar sem er ætlað að réttlæta væga dóma í kynferðisbrota- og ofbeldisdómum. Réttlætingin er í hnotskurn sú að dómurum ber skilda að fara eftir lögum, reglum og hefðum og við hin skiljum þetta barasta ekki.

Nei, ég skil það ekki. Ég kaupi það ekki heldur. Vilji er allt sem þarf og þrátt fyrir breytingar á lögum undanfarin ár hefur vilji dómstólana til að tileinka sér auknar heimildir til refsihækkunar í ofbeldismálum sýnt sig lítill sem enginn.

Væri ekki nær að vinna hörðum höndum við að bæta þetta gallaða réttarkerfi okkar heldur en að eyða meira púðri í að réttlæta óréttlætið. Kona spyr sig.

Nú er það ekki þannig að ég sé eitthvað sérstaklega refsiglöð. Finnst t.d. alls ekki að börn eigi að sitja í fangelsi, sama hver glæpurinn er. -ólíkt þeim herrum sem sitja í forsvari dómsmála í dag.

En ég tel það nauðsynlegt að dómar yfir fullorðnu fólki endurspegli alvarleika glæpsins.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hvað er þetta Mannamál???

ekj