mánudagur, febrúar 26, 2007

Hin fínasta helgi.

Þetta er barasta búin að vera virkilega fín helgi.

Á Laugardaginn fór ég á sýningu nemenda í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands. Þau kynntu þar glæný matvæli sem er afrakstur stefnumóts þeirra við bændur. Þar var hægt að gæða sér á Skyrkonfekti, mýbita, geitarmjólk og klaka-blóðberg með bláberjabragði.

Frábær hugmynd og í anda Draumalandsins. Bara snillingi hefði getað dottið þetta í hug.

Seinna sama dag fór ég að halda uppá útskrift vinkonu minnar. Hún er nú stimpluð guðfræðingur. Ég er umkringd snillingum. Guðfræðingurinn fékk að sjálfsögðu brauðvél frá mér og með fylgdi kort með tveim fiskum...

Sunnudeginum eyddi ég við kaffivélina hennar Guðrúnar Kristjánsdóttur myndlistarmanns og annars guðfræðings hans Ævars. Hafði fyrr um daginn lagt á mig Kringluna og keypt hlaupahjól fyrir Birtu og þríhjól fyrir Loga. Þau út að leika sér. Get ekki hugsað mér betri sunnudag.

Svo kórónaðist helgin með fyrstu sýningu Fjalarkattarins. Já hann er kominn á kreik aftur, nú í Tjarnarbíói.

Ég sá níusýninguna "Rebel without a cause" í leikstjórn Nicholas Ray með ekki minni stjörnum en Natalie Wood, James Deen og Dennis Hopper.

Myndin er orðin hálfrar aldar gömul og ber þess merki. Karlmennskan í hávegum höfð. En greinilegt að strax fyrir hálfri öld var farið að tala um blessuð börnin sem ekki fengu notið nægra samvista við foreldra sína...

Þvílík yndisleg nostalgía. Það er virkileg þörf á góðri kvikmyndarmenningu og Fjalarkötturinn er mikilvægur þáttur í uppbyggingu hennar.
Það er líka gaman að koma í Tjarnarbíó. Alvöru bíóstemming.

Dagskrá Fjalakattarins er hægt að nálgast á vef Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðarinnar.

Sýningar Fjalakattarins fara að jafnaði fram fjórum sinnum á sunnudögum og tvisvar á mánudögum. Á sýningum eru engar leiknar auglýsingar, sýningar hefjast tímanlega og á sýningum er ekki gert neitt hlé.

Hrönn Marínósdóttir á hrós skilið fyrir dugnaðinn.

Í apríl verða þar líka sýndar myndir Astrid Lingren eins og Lína Langsokkur. Látið ekki Fjalaköttinn fram hjá ykkur fara. Hægt er að skrá sig meðlim hér. Gleymið svo ekki að taka börnin með þegar við á.

Engin ummæli: