sunnudagur, febrúar 25, 2007

Sonur minn í Íran.

Hann Máni minn lagði af stað með Jóhönnu ömmu sinni snemma í morgun. Er núna í Amsterdam að bíða eftir flugi til Teheran. Lendir þar í nótt. Þetta verður líklegast stærsta ævintýrið hans hingað til. Hann hefur nú samt lifað þau mörg ævintýrin. En common Íran og öll sú ótrúlega menning sem þar er að finna. Hann getur bara komið stærri til baka. En ég get ekki leynt smá áhyggjuhroll.

Svona eru nú mömmur einu sinni.

Ætti ég að skrifa Bush og láta hann vita að hann eigi mér að mæta ef þeir fara að bröltast meira í miðaustur-löndum meðan hann sonur minn er þar?

Eða ætli þetta sé ekki mest í nösunum á þeim? Stríðið í Írak hefur verið Bandaríkjunum dýrt og þeir geta ómögulega verið spenntir fyrir öðru eins.

Ég man þegar Jóhanna var að lýsa ferð sinni til Íran þegar teiknimyndamálið var í algleymingi. Vaknaði einn daginn á hótelherbergi í Teheran og kveikti á sjónvarpinu. Horfði á fréttir á CNN um að mikil ólæti hefðu brotist út í höfuðborg Íran, Teheran og óður múgur æddi þar um götur og hótaði að drepa alla útlendinga. Hún varð að sjálfsögðu óttaslegin með heilan hóp á sína ábyrgð þarna á hótelinu. Hljóp útí glugga og skimaði yfir borgina. Allt virtist í ró og spekt. Fór niðrí lobby - allir brosandi og indælir. Útá götu - allt í ró og spekt. Fór með hópinn sinn á rölt um Teheran og ekki mættu þau neinu nema kurteisi og höfðingsskap. Fóru öll út að borða á veitingastað um kvöldið hvers eigendur höfðu lagt það á sig að finna nokkuð marga íslenska borðfána og skreyta borðin þeirra með þeim.

Já þær þurfa nefnilega ekki að vera í neinu samræmi við raunveruleikann blessaðar fréttirnar. Stundum eru þær bara sápuópera fyrir þreytta vesturlandabúa og Ameríkana.

Ég ætla allavega að hugga mig við það þangað til drengurinn og amma hans og allir hinir koma aftur heim 10.mars.

Það er hægt að fylgjast með ferðum þeirra á síðunni hennar Jóhönnu Kristjónsdóttur.

Engin ummæli: