laugardagur, maí 26, 2007

Gláparinn.

Af því ég er mega löt í Latabæ þessa dagana, en vil samt sýna réttan blogg lit, þá ætla ég að skella inn Glápara Lesbókarinnar í dag. Það er ég að þessu sinni.

---------------------------------------------------

P1000945

Ég hef verið að bjóða ótrúlegasta fólki heim í stofu til mín. Jafnvel fólki sem hefur
ekkert gott upp á að bjóða. Það er auðvelt að detta í svona samkomur.

En nú reyni ég að velja félagsskap minn betur og beiti því oftar fjarstýringunni til að slökkva á sjónvarpinu.

Stærsta ástæðan fyrir sjónvarpsglápi mínu var atvinnuskaði. Ég taldi mér trú um mikilvægi
þess að fylgjast vel með til að vaxa í starfi. Ég komst þó fljótlega að því að ég græddi ekkert á 85% áhorfsins.

Þá mundi ég hversu margt er hægt að læra af því sem illa er gert. Ég hélt áfram að bjóða inn í stofu á minn kostnað.

Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri hugsun sem hefur sprottið upp hjá mér við áhorfið, sérstaklega aukinni femínískri vitund. Það er þó allt of auðvelt að nýta sjónvarpið sem afslöppunartæki og hleypa þannig viðmótslaust inn á sig hugmyndum um upphafningu ofbeldis og
forheimsku.

Ég óttast að allir raunveruleikaþættirnir, American hitt og þetta, leitin endalausa að gömlum klisjum í nýjum búningi, að ógleymdum sápuóperum, sama í hvaða gæðum, drepi að
lokum í okkur alla trú á vitsmunalíf.

Sjálf þakka ég fyrir að á milli mín og þeirra í sjónvarpinu skuli stundum vera heilt haf og alltaf eitt stykki fjarstýring.


Ég hvet þig til að velja vel hverjum þú hleypir inn í stofu og inn í sálina. Skoðaðu dagskrána,
athugaðu dóma. Ef löngun til áhorfs er mikil þrátt fyrir lélegt framboð sjónvarpsefnis
skaltu skella þér út á næstu vídeóleigu.

Þitt er frelsið til að velja og, það sem ekki síður er mikilvægt, frelsið til að hafna.“

Engin ummæli: