mánudagur, febrúar 11, 2008

Henda ábyrgð yfir öxl, eins langt frá sér og hægt er.


Aumingja Vilhjálmur. Hann er bara mannlegur og þess vegna lenti hann í því að ráðfæra sig við forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur en ekki Borgarlögmann. Og þess vegna lenti hann líka í því að lesa ekki skjöl og týna minnismiðum, verða tvísaga og þrísaga; auðvita alltaf með hag borgarinnar fyrir brjósti (sílíkon?)
Þess vegna sér Vilhjálmur enga ástæðu til að láta sig hverfa úr borgarpólitíkinni. Hann er sko mannlegur með öxl.
Jórunn Frímannsdóttir segir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins standa þétt á bak við Vilhjálm. Það að þeir hafi verið ósýnilegir á bak við hann í dag, og flúið bakdyra- eða kjallaramegin út og ekki viljað ræða við fréttamenn, var bara svo Vilhjálmur ætti einn sviðið. Ógeðslega fyndið. Næstum krúttlegt.

Vilhjálmur og þeir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, sem fjölmiðlar náðu í rassinn á, telja að hann, borgarstjórinn fyrrverandi og tilvonandi, hafi axlað sína ábyrgð. Ég er ekkert rosalega hissa.

Þetta er sama fólkið og taldi Árna Johnsen hafa axlað sína ábyrgð um leið og hann slapp frá Kvíabryggju. Sama fólkið og hljóp til handa og fóta, þegar Forsetinn var frá, og veittu brekkusöngleysunni uppreista æru. Aldrei heyrðist Árni harma þann mannlega brest sinn að ræna verðmætum frá almenningi eða sjá eftir því. Fannst hann jafnvel hafa átt þetta smáræði skilið fyrir að hafa haft hag annarra svona mikið fyrir sama brjósti og Vilhjálmur. Samt dálítið fúll að hafa verið staðinn að verki. Hann bara lenti í því eins og Vilhjálmur.

Þetta virðist vera flokkslínan. Eða kannski frekar flokksskilningur á hugtakinu "að axla ábyrgð"? Ég held nefnilega að hópur innan Sjálfstæðisflokksins haldi að það að axla ábyrgð sé að henda ábyrgðinni yfir öxl, eins langt frá sér og hægt er og horfa ekki eftir hvar hún lendir.



Er það ekki bara Eyþór sem hefur þurft, svona í alvöru, að axla ábyrgð á gjörðum sínum!? Missti stöðu sína innan flokksins eftir ölvunarakstur, fór í meðferð og er að endurmeta sjálfan sig. Það kalla ég virðingarvert. Okkur getur jú öllum orðið á. Það er bara þetta að axla ekki ábyrgð sem er svo óheiðarlegt. Jú, jú Sigurður Kári missti ökuskírteinið í eitt ár. En ekki þurfti hann að hafa áhyggjur af þingsætinu eða endurmeta sjálfan sig. Gat bara haldið áfram að tala fyrir áfengi í matvörubúðum og láta eins og ekkert hafi í skorist.
Kommon. Sjálfstæðisflokkurinn tók Gunnari Örlygssyni, frá Frjálslyndum, fagnandi þegar hann var búinn að hefja þingmennsku sína með því að sitja af sér helminginn af 6 mánaða dóm fyrir nótulaus viðskipti, skattsvik og ölvunarakstur. Þá var hann skírður inní flokkinn.

Axlar maður ábyrgð með því að sitja af sér fangelsisdóm? Missa ökuskírteini? Neita að segja af sér? Ætli ég geti þá axlað ábyrgð á feitri skattaskuld með því að hella mér útí pólitík - eða hætt í líkamsrækt. Mhhhhuuuhhahaaa.

Allavega. Vilhjálmur telur þetta eingöngu snúast um að hann þurfi að endurvinna traust borgarbúa - aumingja Villi. Hann ætti kannski að taka út nokkra veikindadaga.

p.s. Áhugaverð skrif eftir Reyni Traustason. Tilhugsunin um þetta valdatafl innan Sjálfstæðisflokksins veldur mér ógleði. Þorgerður Katrín og Hanna Birna bera af flestum öðrum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins og líklegast þær einu sem geta komið honum á þurrt.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ Beta mín.

Já mikil er spillingin í Sjálfstæðisflokknum. Það er eitt sem er víst. Vona að þetta sé ekki svona í öllum flokkunum.

En atburðir dagsins með Vilhjálm t.a.m. hafa ekki styrkt stöðu Sjálfstæðisflokksins. Það er eitt sem er á hreinu.

Og fyndið líka að þeir skildu fara fara út af fundinum bakdyra megin. Mér fannst það alveg magnað. Þetta sýnir bara það hversu traustið er rúið.

Mér finnst bara að hann hafi átt að axla ábyrgð og segja af sér í dag. Það ere mín skoðun.

Hafðu það sem best Elísabet mín og gangi þér sem best í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Það er gaman að lesa blogggið þitt hérna.

Bestu kveðjur.

Valgeir.

Hringbrautin sagði...

Ég held þetta sé að finna í öllum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn telur sig bara komast upp með þetta í krafti allt of langrar valdsetu.

Þegar þeim finnst í lagi að haga sér svona í borginni - sem þeir hafa ekki haft meirihluta yfir í langan tíma - hvernig heldur þú að þeir séu að haga sér í ríkisstjórninni!? Hryllileg tilhugsun.

Nafnlaus sagði...

Þú segir svo margt, ég veit eiginlega ekki hvað ég á að byrja!
Árni Johnsen var valinn í prófkjöri á lýðræðislegan hátt. Hvað svo sem öllum öðrum sjálfstæðismönnum finnst um það. Hins vegar skil ég ekki alveg hvers vegna ekki má setja lög um hæfi þeirra sem bjóða sig fram, til dæmis að þeir hafi ekki hlotið dóm fyrir að þiggja mútur í starfi!
Ég er sammála þér um Þorgerði og Hönnu Birnu. Hanna Birna var líka kjörin á mjög lýðræðislegan hátt, hún er með yfirgnæfandi meirihluta flokksbundinna sjálfstæðismanna í Reykjavík á bak við sig. Þess vegna er fráleitt að einhverjir pótintátar skipti sér af því.
Það er ekki hægt að neyða Vilhjálm til að segja af sér, sbr. orð Geirs Haarde: ég get ekki látið hann segja af sér (eða eitthvað svoleiðis). Ég veit ekki hvort það þýðir að hann hafi reynt en hann hefur allavega velt því fyrir sér. Það getur enginn látið Vilhjálm fara fyrr en í næsta prófkjöri.
Úff ég hef enga yfirsýn yfir það sem ég er að segja hérna, knús til þín :)

Nafnlaus sagði...

Ha, missti Sigurður Kári prófið? Eyþór gerði reyndar gott betur en það, hvarf af vettvangi og setti (næstum því barnunga) unnustu sína við stýrið. Og ýmislegt svona. Mér fannst nú að Eyþór hefði átt að láta sig hverfa, það er ekki einleikið hvað margir þingmenn Sunnlendinga hafa komist í kast við lögin.
Og þetta með Gunnar Örlygs er skandall. Fyrst ég er byrjuð að segja það sem mér finnst, þá finnst mér að ef þingmenn geti ekki samvisku sinnar vegna starfað í umboði kjósenda sinna, þá eigi þeir að víkja. Þetta flokkaflandur eftir kosningar er ekkert annað en óvirðing við lýðræðið.
Ja, ja, við erum góð!

Nafnlaus sagði...

Mig vantar bakdyr...

Nafnlaus sagði...

úps - þetta er sko pistill - hvar færðu kraftinn í þetta?
Það er sérstakt að menn eru að skíta í buxurnar á hægri vængnum en við vitum ekkert um aðra! Eru hinir svona góðir?
Varla, eða kannski er þetta vegna stærðar og valda í Sjálfstæðini - þeir geta allt og mega allt!
Rosalega þarf ég og hinir að hafa sig við í propogandanu til að þeir noti ekki þöggunar aðferðina!
Davíð segir við Villa, við látum engan segja okkur fyrir verkum Villi minn , við ráðum þessu sjálfir!
Villi, já það er satt Davíð, einhvernvegin hefur þú komist af!

Nafnlaus sagði...

Sástu myndina um Pútín í gærkvöldi?

Dúa sagði...

Er ekki allt svona kallað "mannlegur harmleikur" í dag? :/